Innlent

Ráðist á unga konu á Selfossi - lagði til hennar með eggvopni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Lögreglan lýsir nú eftir upplýsingum um málið.
Lögreglan lýsir nú eftir upplýsingum um málið. Vísir/Pjetur
Ráðist var á unga konu á göngustíg á milli Suðurengis og Vesturhóla á Selfossi um klukkan 23:30 í gærkvöldi.  Konan var á göngu ásamt hundi þegar karlmaður réðist aftan að henni á göngustígnum og snéri henni við.

Maðurinn lagði til konunnar með eggvopni.  Einnig sló hann hana hnefahögg í andlitið. Gat kom á yfirhöfn konunnar og hún hlaut minni háttar áverka.  Maðurinn leitaði í vasa konunnar.

Hundurinn lét til sín taka með því að gelta að manninum og glefsa í hann sem varð til þess að árásarmaðurinn lagði á flótta vestur göngustíginn og norður í átt að Lágengi. Göngustígurinn er ekki upplýstur.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi.Mynd/Magnús Hlynur
„Vegna myrkurs sá konan ekki framan í árásarmanninn en lýsti honum sem þreknum og um 175 sentimetrar á hæð.  Hann var dökkklæddur með svarta húfu og frá honum lagði megnan vindlaþef.  Skammt frá árásarstaðnum fannst svört húfa en ekki er staðfest hvort hún sé af árásarmanninum.

Læknir var fenginn til að skoða áverka konunnar sem voru eins og fyrr segir minni háttar", segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Allir þeir sem gætu búið yfir upplýsingum um mannaferðir á göngustígnum á milli Lambhaga og Tryggvagötu á milli klukkan 23:00 og 23:40 í gærkvöldi eða kannast við lýsingu af manninum eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×