Innlent

Ráðist á starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Starfsmaðurinn var í útkalli á heimili í Reykjavík þegar gestkomandi veittist að honum.
Starfsmaðurinn var í útkalli á heimili í Reykjavík þegar gestkomandi veittist að honum. vísir/gva
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú líkamsárás sem starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur varð fyrir í síðasta mánuði. Starfsmaðurinn var í útkalli á heimili í Reykjavík þegar gestkomandi veittist að honum. Sá var handtekinn í kjölfarið.

Heimildir fréttastofu herma að heimilismaður hafi óskað eftir aðstoð lögreglu. Þá hafi starfsmaðurinn hlotið einhverja áverka, en ekki hafa fengist upplýsingar um alvarleika þeirra. Hann leitaði sér hins vegar aðhlynningar á slysadeild eftir árásina.

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, forstjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir í samtali við Vísi að ekki hafi verið talin hætta á ferðum, og því hafi starfsmaðurinn farið einn í útkallið. „Það eru ákveðnar reglur um það hvernig við förum á vettvang. Við förum með lögreglu eða tvö saman, en þarna voru kringumstæður þannig að það var ekki von á að neitt svona gæti gerst. En þarna var um gest á heimilinu að ræða sem veittist að starfsmanninum,“ segir hún.

Aðspurð segir Halldóra að fólki sé alltaf boðin áfallahjálp í tilfellum sem þessum. „Það fer í gang ákveðið ferli hjá okkur. Það er sérstök ofbeldis- og áreitinefnd innan velferðarsviðs og viðkomandi er boðið áfallaviðtal hjá utanaðkomandi sérfræðingi.“

Þá segir Halldóra að það hafi færst nokkuð í aukana að starfsfólk Barnaverndar verði fyrir aðkasti, hvort sem um sé að ræða líkamlegt ofbeldi eða andlegt. Það sé mikið áhyggjuefni og að bregðast þurfi við.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu miðar rannsókn málsins vel, en tekin verður ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra að rannsókn lokinni. Árásarmanninum var sleppt úr haldi lögreglu eftir yfirheyrslur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×