Innlent

Ráðhús Kópavogs verði í miðbænum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Vinnan var unnin í framhaldi af auglýsingu Kópavogsbæjar um sölu á skrifstofum bæjarins og þróun miðbæjarsvæðisins.
Vinnan var unnin í framhaldi af auglýsingu Kópavogsbæjar um sölu á skrifstofum bæjarins og þróun miðbæjarsvæðisins. mynd/zeppilin
„Okkar hugmynd gengur út á það að byggja nýtt hús í Hamraborginni sem yrði ráðhús bæjarins. Hluti þess yrði þó væntanlega leigður undir aðra starfsemi, enda húsið stærra en þörf er á undir bæjarskrifstofur,“ segir Orri Árnason, arkitekt á arkitektastofunni Zeppelin.

Orri Árnason arkitekt
Tillöguna að uppbyggingu miðbæjar Kópavogs hefur Zeppelin unnið ásamt nokkrum fjárfestum. Vinnan var unnin í framhaldi af auglýsingu Kópavogsbæjar um sölu á skrifstofum bæjarins og þróun miðbæjarsvæðisins.

Starfshópur um húsnæðismál bæjarskrifstofu Kópavogs hefur ekki komist að samkomulagi um framtíðarlausn og er klofinn í afstöðu sinni. Meðlimir hópsins geta ekki sammælst um hvort flytja eigi skrifstofur í annan hvorn af turnunum tveimur við Smáralind eða ráðast í endurbætur á núverandi húsnæði.

„Ráðhúsið tæki mið af bogadregnum húsum í næsta umhverfi og auðvitað einnig af Kópavogskirkju, kennileiti bæjarins. Þjónustubygging sem myndi teygja sig út frá ráðhúsinu og yfir á brúna yfir Kópavogsgjá myndi hýsa verslanir og veitingastaði og mynda skjól fyrir vindum, um leið og hún myndar ráðhústorg, ásamt tveimur byggingum sem standa sín hvorum megin brúarinnar,“ segir Orri og bætir við að á ráðhústorginu yrðu veitingastaðir og verslanir.

Svona gæti miðbær Kópavogs litið út.mynd/zeppilin
Fjórar tillögur um nýjar bæjarskrifstofur bárust Kópavogsbæ eftir að auglýst var eftir þeim. Að sögn Orra virðist sem fjórða tillagan, tillaga Zeppelin, hafi dottið út af borðinu.

„Tillöguna kynntum við á fundi þar sem einungis mættu tveir embættis­menn fyrir hönd bæjarins,“ segir hann.

Að sögn Orra eiga bæjarskrifstofurnar heima í ráðhúsi í miðbæ Kópavogs, enda styrki slíkt fyrirkomulag allan brag og bæjarvitund.

„Það vita allir að miðbær Kópavogs er í Hamraborginni og við viljum halda skrifstofunum á svæðinu en þróa og fegra það í leiðinni. Öllum breytingum fylgja tækifæri og er umrætt svæði í slæmu ásigkomulagi. Menn hafa lengi haft hugann við það að þarna verði flottur miðbær og lagt í það ómælt fjármagn. Í því sambandi er sjálfgefið að nefna yfirbyggingu sjálfrar gjárinnar, Gerðarsafn og Salinn. Okkar hugmynd er liður í því að styrkja enn frekar við þá uppbyggingu,“ segir Orri Árnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×