Innlent

Ráðherrar taka nokkra daga í að finna viðbótarfjármagn í vegakerfið

Heimir Már Pétursson skrifar
Jón Gunnarsson samgönguráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. Vísir
Framlög til vegamála verða aukin um hundruð milljóna króna á næstu dögum en ríkisstjórnin fól fjármálaráðherra og samgönguráðherra að koma með tillögur þar að lútandi á fundi sínum í dag. Samgönguráðherra segir vegabætur við Berufjörð og Dettifoss meðal framkvæmda á forgangslista.

Við gerð síðustu fjárlaga samþykkti Alþingi að setja 4,5 milljarða til viðbótar í vegaframkvæmdir og eru heildarframlögin því um 17 milljarðar á þessu ári. Jón Gunnarsson samgönguráðherra vill láta skoða að setja vegtolla á helstu leiðir inn og út úr höfuðborgarsvæðinu, þannig að hægt sé að fara í stórar og dýrar framkvæmdir.

Þótt 17 milljarðar fari í vegaframkvæmdir á þessu ári er sú upphæð langt frá þeim 65 milljörðum sem fullyrt var á iðnþingi í gær að þyrfti að setja í viðhald og nýframkvæmdir í vegakerfinu. En aðeins á þessu ári vantar tíu milljarða til að uppfylla samgönguáætlun sem samþykkt var á þingi fyrir áramót.

„Málið er mjög brýnt. Við horfum upp á að það urðu mikil vonbrigði mjög víða á landinu vegna þess að fjárlög uppfylltu ekki nema lítinn hluta af metnaðarfullri samgönguáætlun síðasta árs. Við því ætlum við að reyna að bregðast núna. Það var mjög góður skilningur á þessu við ríkisstjórnarborðið, eðlilega. Vandinn kristallaðist svolítið eftir að við vorum búin að raða verkefnunum niður á það sem við höfðum til umráða,“ segir samgönguráðherra.

Hann og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra aðeins ætla sér nokkra daga til að leggja fram tillögur um viðbótarfjármagn. En miðað við þau verkefni sem hann nefnir í forgangi fáist aukið fé til vegamála má ætlað að bætti verði við að minnsta kosti einum til tveimur milljörðum til framkvæmda á þessu ári.

Verkefni í forgangi

Í forgangi nefnir Jón Berufjörð, og að fjármagn verði til að byrja af krafti við Teigskógarveg þegar hann komi úr skipulagsferli síðar á árinu.

„Við erum líka með mikil vandamál á Skógarströndinni. Við erum með Uxahryggjarleið og við erum með mikla þörf á Suðurlandi líka. Hún blasir við okkur alls staðar. Þannig að þetta eru kannski svona verkefnin; nú Dettifossvegurinn, svo ég nefni hann. Þetta eru kannski þau verkefni sem við hefðum gjarnan viljað, þrátt fyrir takmörkuð fjárráð, getað sett eitthvað í núna og myndu alveg örugglega vera í forgangi ef það kæmi viðbótarfjármagn,“ segir samgönguráðherra.

Hann sem samgönguráðherra myndi að sjálfsögðu vilja fjármagna allt í samgönguáætluninni en hann geri sér ekki neinar vonir um að verði hægt. Ekki sé hægt að búast við að gríðarlega mikið fjármagn komi inn í samgöngumálin á næstu árum ef halda eigi nauðsynlegum aga í ríkisfjármálum því skattar verði ekki hækkaðir. Þess vegna verði að skoða aðrar fjármögnunarleiðir á stórum verkefnum.

„Ef að við gætum tekið þessar stóru fjárfreku framkvæmdir út fyrir sviga, hér inn og út úr höfuðborgarsvæðinu, sem við blasir að þarf að fara í. Mjög brýnt eins og slysin sýna okkur. Þá auðvitað verða ruðningsáhrifin þau að við hefðum rikisfjármagnið til að stilla inn á framkvæmdir annars staðar á landinu og í önnur verkefni hér á höfuðborgarsvæðinu. Þá myndum við sjá alvöru átak verða hér á nokkrum árum,“ segir Jón Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×