Innlent

Ráðherra útilokar ekki að minnstu braut Reykjavíkurflugvallar verði lokað

Heimir Már Pétursson skrifar
Innanríkisráðherra segist ekki geta útilokað að minnstu flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli verði lokað en það muni hins vegar ekki gerast áður en Rögnunefndin og Ísavía ljúki öryggisúttekt sinni á flugvellinum. Búist er við að Reykjavíkurborg gefi út formlegt byggingarleyfi í nágrenni flugbrautarinnar innan skamms.

Valsmenn ehf eru með stór áform um byggingu á nýju hverfi á Hlíðarenda með blandaðri byggð fyrir um sex þúsund íbúðir og voru þau áform kynnt í mars síðast liðnum. Skipulag borgarinnar hefur samþykkt þetta fyrir sitt leyti og aðeins á eftir að gefa út formlegt byggingarleyfi svo framkvæmdir geti hafist.

Framkvæmdin stangast hins vegar á við rekstur norð-austur, suð-vestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar sem samkomulag var gert um í október um að fengi að standa óhreyfð þar til nefnd Rögnu Árnadóttur um framtíð flugvallarins skilaði af sér.

Er forsvaranlegt að gefa út slíkt leyfi áður en framtíð flugvallarins hefur verið ákveðin?

„Ríkisvaldið getur ekki skipt sér af slíkum útgáfum hjá einstaka sveitarfélögum. Hins vegar var það þannig að Reykjavíkurborg og ríkið voru sammála um það að taka ekki stefnumótandi nýjar ákvarðanir er varðaði þetta mál fyrr en Rögnunefndin hefði lokið störfum. Hún hefur ekki lokið störfum en það er auðvitað ákvörðun ríkisvaldsins síðan hvort loka á brautinni og þá nákvæmlega hvenær,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.

Nú sé í gangi öryggisúttekt hjá Ísavia um hvort flugvöllurinn geti sinnt hlutverki sínu án þessarar flugbrautar, sem notuð er í óhefðbundnum áttum í allt að 22 daga á ári.

„Við bíðum eftir niðurstöðunni hvað það varðar. Það stóð til að loka henni um síðustu áramót en við erum að greina þessa úttekt hjá Ísavia,“ segir Hanna Birna.

Þeir sem vilja flugvöllinn áfram óbreyttan segja nýtingarhlutfall minnka mikið ef flugbrautinni verði lokað og öryggi landsmanna m.a. vegna sjúkraflugs verði minna.

„Bráðabirgðaniðurstöður frá Ísavia gera ekki ráð fyrir að þetta skapi óöryggi. Það sé hægt að nýta svæðið í Keflavík til að koma til móts við þetta. En við verðum bara að sjá hver niðurstaðan verður endanlega og síðan verður ákvörðun tekin í framhaldi af því,“ segir Hanna Birna.

Mikilvægt sé að Rögnunefndin fái að klára sín störf. En það eru engu að síður líkur á að þessari flugbraut verði lokað á næstu mánuðum?

„Það hefur verið í gildi í mörg ár og jafnvel áratugi samkomulag milli ríkis og Reykjavíkurborgar um að það sé framtíðin. Nú bíðum við eftir öryggisúttektinni og tökum ákvörðun í framhaldi af því,“ segir innanríkisráðherra.

En þú útilokar það ekki?

„Ég get ekki útilokað það, nei,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×