Innlent

Ráðherra um deilur Landspítala og Sjúkratrygginga: „Dapurt hvernig fyrir þessu máli er komið“

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbirgðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbirgðisráðherra.
„Það er heldur dapurt hvernig fyrir þessu máli er komið,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í samtali við Vísi um deilur Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans.

Ríkisendurskoðun birti í dag skýrslu um samninga ríkisins vegna sjúkrahótels í Ármúla. Hafa þessar deilur staðið yfir um nokkurra ára skeið og telur Ríkisendurskoðun þetta ósætti ótekt og hvetur velferðarráðuneytið til að höggva á þá hnúta sem komnir eru á málið.

Jafnframt þurfi að marka skýra stefnu um eðli og rekstur sjúkrahótela og tryggja samræmi í samningum um rekstur og þjónustu slíkra hótela.

Kristján Þór tekur undir þessa niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og segir ráðuneytið hafa hafið vinnu við að leysa þetta mál.

„Ég gekk í það strax um helgina að biðja ráðuneytið um að funda með Landspítalanum og Sjúkratryggingum og fara yfir málin með þeim,“ segir Kristján Þór. Hann segir ráðuneytið ekki hafa mjög langan tíma til að fá einhverja niðurstöðu í málið.

„Það er hins vegar algjörlega ótækt eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að tvær ríkisstofnanir skuli standa í opinberum deilum um verkefni eins og þetta. Það er ekki æskilegt.“

Kristján Þór var einnig tekinn tali í kvöldfréttum Stöðvar 2 um málið:

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um samninga sem gerðir hafa verið vegna starfsemi sjúkrahótels við Ármúla í Reykjavík. Sjúkrahótel eru tímabundinn dvalarstaður fyrir sjúklinga sem þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda.

Hafa tvívegis samið við einkafyrirtæki

Sjúkratryggingar Íslands hafa á undaförnum árum tvívegis samið við einkafyrirtæki um rekstur umrædds sjúkrahótels. Fyrst árið 2011 við fyrirtækið Sinnum ehf. og svo aftur árið 2015 við Heilsumiðstöðina ehf.  og Sinnum ehf. Landspítalinn átti aðild að fyrri samningnum sem verkkaupi. Auk þess skyldi hann veita hjúkrunarþjónustu á sjúkrahótelinu. Árið 2015 gerðu Sjúkratryggingar og Landspítalinn með sér sérstakan samning um þessa þjónustu.

Í skýrslunni kemur fram að Landspítalinn hafi allt frá árinu 2011 gert margvíslegar athugasemdir við aðstöðu, aðbúnað og efndir rekstraraðila á samningunum. Sjúkratryggingar hafi talið þær tilefnislausar og stofnanirnar deilt opinberlega vegna þessa. Ríkisendurskoðun telur þetta ótækt og hvetur velferðarráðuneytið til að höggva á þá hnúta sem komnir eru á málið. Þá hvetur stofnunin ráðuneytið til að marka skýra stefnu um eðli og rekstur sjúkrahótela/sjúklingahótela og kanna hvort rétt sé að fella starfsemi þeirra undir lög um heilbrigðisþjónustu.

Deilan snýst um hjúkrun og aðhlynningu

Fram kemur að deila Sjúkratrygginga og Landspítala snúist m.a. um hjúkrun og aðhlynningu þeirra sem dvelja á sjúkrahótelinu. Sjúkratryggingar bendi á að sjúklingar eigi að vera sjálfbjarga þegar þeir innritast á hótelið. Landspítalinn og rekstraraðilar sjúkrahótelsins telji á hinn bóginn að sumir sjúklingar sem þangað komi þurfi mikla aðstoð og sérhæfða meðferð. Ríkisendurskoðun vekur athygli á að um þetta sé líka ósamræmi milli samninga Sjúkratrygginga við annars vegar rekstraraðila og hins vegar Landspítalann. Ríkisendurskoðun beinir því til Sjúkratrygginga að eyða þessu ósamræmi.

Þörfin fyrir hjúkrun aldrei metin

Fram kemur í skýrslunni að raunveruleg þörf sjúklinga fyrir hjúkrun og aðhlynningu (hjúkrunarþyngd) hafi aldrei verið metin. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að úr þessu verði bætt svo að ekki þurfi að deila um ástand og þjónustuþörf sjúklinganna. Jafnframt beinir stofnunin því til velferðarráðuneytisins að það tryggi að upplýsingar um starfsemi sjúkrahótela, m.a. hjúkrunarþyngd og fjölda gistnátta, séu skráðar með samræmdum hætti. Þannig verði unnt að meta þjónustu þeirra og hagkvæmni rekstrarins.

Starfsemin leggst af í lok apríl að öllu óbreyttu

Í skýrslunni er bent á að skilgreining á sjúkrahóteli í reglugerð sé ekki í samræmi við starfsemi slíkra hótela. Einnig hafi gjaldskrá reglugerðarinnar verið óbreytt frá árinu 2010. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að endurskoða reglugerðina (nr. 207/2010).

Er þess getið að nýverið sögðu rekstraraðilar sjúkrahótelsins í Ármúla upp samningi sínum við Sjúkratryggingar og mun starfsemi sjúkrahótelsins því að öllu óbreyttu leggjast af í lok apríl 2016. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf þessi niðurstaða ekki að koma á óvart. Stofnunin hvetur velferðarráðuneyti til að eyða deilum Sjúkratrygginga og Landspítala og koma málum í viðunandi horf.


Tengdar fréttir

Þurftu að kaupa gögn um sjúkrahótel

Landspítali þurfti, líkt og aðrir verktakar, að kaupa útboðsgögn um sjúkrahótel í fyrra til að öðlast upplýsingar. Framkvæmdastjóri sjúkrahótelsins segir samráð hafa átt sér stað í aðdraganda útboðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×