Innlent

Ráðherra telur raunhæft að klára ljósleiðaravæðingu fyrir árslok 2020

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ljósleiðaravæðing landsins kostar 5 milljarða.
Ljósleiðaravæðing landsins kostar 5 milljarða. vísir/anton

Rúma fimm milljarða þarf til að ljósleiðaravæða allt landið. Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar, varaþingmanns Samfylkingarinnar.

Kostnaðurinn miðar við mögulega samleið með öðrum framkvæmdum orku- og veitufyrirtækja á næstu árum og þeirra sveitarfélaga sem verið er að ljósleiðaravæða að hluta eða öllu leyti.

Mestur kostnaður er á Suðurlandi, þar sem gert er ráð fyrir að ljósleiðaravæðing kosti 1,4 milljarða króna. Aðeins þarf fimmtíu milljónir til að klára ljósleiðaravæðingu Reykjaness og á höfuðborgarsvæðinu vantar 207 milljónir.

Kostnaðurinn við að ljósleiðaravæða Austurland er metinn 689 milljónir, Norðurland eystra 672 milljónir og vestra 966 milljónir. Ljósleiðaravæðing Vestfjarða er metin á 357 milljónir og Vesturland á 866 milljónir króna. Samtals nemur kostnaðurinn 5,2 milljörðum króna.

Ólöf segir í svarinu að raunhæft sé að klára ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2020. Það gerir þó ráð fyrir því að sérstakt landsátak verði á næsta ári. Ekki standa hins vegar yfir neinar formlegar viðræður við sveitarfélög um ljósleiðaraveiðinguna en skýrsla starfshóps um málið hefur kynnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×