Innlent

Ráðherra skipar Baldur Guðlaugsson formann hæfisnefndar

Birgir Olgeirsson skrifar
Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað Baldur Guðlaugsson lögfræðing sem formann hæfisnefndar sem á að meta umsækjendur um starf skrifstofustjóra í atvinnuvegaráðuneytinu.

Þetta segir Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, í samtali við Vísi en aðrir nefndarmenn eru Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Helga Hlín Hákonardóttir lögfræðingur.

Fyrst var greint frá málinu á vef Kjarnans.

Þar kemur fram að starfið sem um ræðir sé skrifstofustjóri viðskipta-, nýsköpunar og ferðaþjónustu. Sigurður Ingi deilir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þórir Hrafnsson segir við Vísi að aðeins annar ráðherranna beri ábyrgð á starfsmannamálum ráðuneytisins og það sé í þessu tilviki Sigurður Ingi Jóhannsson.

Árið 2011 var Baldur dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir innherjasvika og brot í opinberu starfi þegar hann seldi hlutabréf sín að andvirði 192 milljóna króna í september árið 2008, rétt fyrir bankahrunið. Dómurinn var staðfestur í Hæstarétti árið 2012.

Fyrir hrun gegndi Baldur stöðu ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og var nefndarmaður í starfshópi um fjármálastöðugleika. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×