Innlent

Ráðherra hyggst ekki endurskoða veiðibann á lúðu

Atli Ísleifsson skrifar
Beinar veiðar á lúðu voru bannaðar með reglugerð frá og með 1. janúar 2012.
Beinar veiðar á lúðu voru bannaðar með reglugerð frá og með 1. janúar 2012. Vísir/GVA
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hyggst ekki endurskoða veiðibann á lúðu og hvetur hlutaðeigandi til að taka virkan þátt í verndun lúðunnar.

Í greinargerð Hafrannsóknastofnunar um áhrif veiðibanns á lúðu kemur fram að ljóst sé að áfram verði að taka af festu á alvarlegu ástandi lúðustofnsins við Ísland, að því er segir í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Beinar veiðar á lúðu voru bannaðar með reglugerð frá og með 1. janúar 2012.

„Í lokakafla greinargerðarinnar segir m.a. að uppbygging lúðustofnsins sé langtímaverkefni og ólíklegt sé að umtalsverður bati náist fyrr en eftir 5-10 ár. Vegna hægs vaxtar lúðunnar og þess hversu seint hún verður kynþroska komi árangur friðunar ekki í ljós fyrr en að mörgum árum liðnum. Hafrannsóknastofnun leggur til að áfram verði unnið að aðgerðum til verndar lúðustofninum og reglugerð um bann við veiðum á lúðu verði í gildi þar til merki um verulegan bata í lúðustofninum við Ísland komi fram,“ segir í tilkynningunni.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskaði í október 2013 eftir áliti Hafrannsóknastofnunar um áhrif veiðibanns á lúðu. „Í greinagerð stofnunarinnar  er fjallað um útbreiðslu og líffræði lúðunnar, veiðar á henni, ástand stofnsins, vernd og viðreisn lúðu í Norður Atlantshafi, rannsóknir á afdrifum lúðu sem er sleppt o.fl. Þá er fjallað um merkingar Hafrannsóknastofnunar á lúðu sem ráðist hefur verið í til að auka þekkingu á stofninum og áhrif veiðibannsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×