Erlent

Ráða í framtíð Merkel úr sambandslandskosningum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kjósandi greiðir atkvæði í sambandslandskosningunum í Saarland.
Kjósandi greiðir atkvæði í sambandslandskosningunum í Saarland. Vísir/EPA
Íbúar í þýska sambandslandinu Saarland ganga að kjörborðinu í dag. Grannt er fylgst með úrslitum kosninganna sem taldar eru gefa vísbendingar um hvernig Angelu Merkel kanslara mun reiða af í þingkosningunum í haust.

Samsteypustjórn Kristilega demókrataflokks Merkel (CDU) og Sósíaldemókrata (SPD) stjórnar Saarland líkt og Þýskalandi sjálfu. Því er talið að kosningar til sambandslandsþingsins þar í dag geti varpað ljósi á stöðu Merkel sem sækist eftir fjórða kjörtímabili sínu sem kanslari.

Skoðanakannanir benda til þess að CDU njóti mests fylgis flokkanna en að meirihluti SPD, vinstriflokksins Linke og Græningja gæti verið í spilunum. Öfgahægriflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (Afd) gæti unnið þingsæti í kosningunum. AfD hefur meðal annars alið á andúð á innflytjendum og flóttamönnum og náð sætum á öðrum sambandslandsþingum.

Á landsvísu sýna kannanir CDU og SPD jafnstóra en að kjósendur vilji heldur Martin Schulz, leiðtoga SPD, sem næsta kanslara samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Þingkosningar í Þýskalandi fara fram 24. september. Kosið verður til sambandslandsþings Schleswig-Holstein og Norðurrínar-Vestfalíu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×