Innlent

Ráða hóp nýrra starfsmanna á Akureyri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ákvörðun ráðherra um að flytja stofnunina sætti harðri gagnrýni.
Ákvörðun ráðherra um að flytja stofnunina sætti harðri gagnrýni. fréttablaðið/valli
Höfuðstöðvar Fiskistofu munu flytjast til Akureyrar um næstu áramót.

Eyþór Björnsson fiskistofustjóri mun flytjast til Akureyrar og starfa þar ásamt starfsmönnum sem þar eru fyrir, öðrum sem óska eftir flutningi norður á Akureyri og nýjum starfsmönnum sem ráðnir verða. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að starfsmenn Fiskistofu sem nú starfa í Hafnarfirði muni hafa val um starfsstöð, á Akureyri eða í Hafnarfirði. Eyþór segir að starfsmenn Fiskistofu muni þurfa að fara í gegnum verkferla hjá sér. „Hvernig starfsstöðin getur gengið best í þessari dreifðu starfsemi. Og líka hvernig samskiptum innan stofnunarinnar verður háttað miðað við þessa nýju sviðsmynd.“

Eyþór býst ekki við stórkostlegum breytingum á starfsmannahópnum. „Ég á ekki von á öðru en að það verði sami venjulegi stöðugleikinn og verið hefur. Eðlileg starfsmannavelta hefur verið 6-11 prósent og ég á bara von á að það verði í þeim takti. Við erum núna komin í þá stöðu að það er enginn sem á það á hættu að þurfa að flytja norður eða hætta. Nú geta allir starfað hjá Fiskistofu áfram,“ segir hann. Eyþór segir að það muni þurfa að ráða inn töluverðan fjölda á Fiskistofu á næstunni, því það hafi fækkað í hópnum. Eðlilegur starfsmannafjöldi, miðað við fulla mönnun, sé 73 til 74.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×