Erlent

Puttaferðalangur fékk ekki far í fjóra daga og brjálaðist

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það getur verið erfitt að ferðast á puttanum líkt og franskur ferðalangur fékk að kynnast.
Það getur verið erfitt að ferðast á puttanum líkt og franskur ferðalangur fékk að kynnast. Vísir/Getty
Að ferðast á puttanum getur bæðið verið spennandi og skemmtilegt en einnig pirrandi og tímafrekt. Franski puttaferðalangurinn Cedric Claude Rene Rault-Verpre fékk að kynnast því síðara á Nýja-Sjálandi á dögunum sem endaði með því að hann brjálaðist og var handtekinn fyrir að ráðast á skilti.

Cedric var staddur í smábænum Punakaiki á vesturströnd Suðureyju Nýja-Sjálands og freistaði þess að fá far úr bænum. Honum varð hins vegar ekkert ágengt í þeim efnum í fjóra daga í röð og virðist ekki hafa verið neitt sérstaklega sáttur með það.

Vitni segja hann hafa ráðist á skilti, hent einu slíku út í á auk þess sem hann hreytti ókvæðisorðum að íbúum bæjarins. Þetta fór ekki vel ofan í þá sem byggja þennan litla bæ og var kvartað til lögreglu sem handtók Claude og kærði hann fyrir skemmdir á almannaeign.

Cedric sagðist fyrir rétti vera hneykslaður á ógestrisni Nýsjálendinga og að enginn hafi boðið honum vatn á meðan hann beið í fjóra daga. Hvatti hann Nýsjálendinga til þess að breyta nafni ríkisins í Nasista-Sjáland, fremur en Nýja-Sjáland.

Lögregla segir að hefði hann labbað af stað í stað þess að bíða í fjóra daga hefði hann getað komist 220 kílómetra. Ljóst er að reynslan hefur sett svartan blett á ferðalag Claude sem er ólíklegur til þess að snúa aftur til Nýja-Sjálands.

„Ég hef komið til 80 landa,“ sagði Cedric sem virðist jafnframt ekki vera hrifinn af Bandaríkjunum. „Versti Bandaríkjamaðurinn er ekki jafn mikið fífl og Nýsjálendingur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×