Fótbolti

Putin býður Blatter á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sepp Blatter og Vladimir Putin eru miklir vinir.
Sepp Blatter og Vladimir Putin eru miklir vinir. vísir/getty
Sepp Blatter, fyrrverandi forseti FIFA, segir að Vladimir Putin, Rússlandsforseti, hafi boðið sér á HM í Rússlandi á næsta ári.

Blatter, sem var forseti FIFA á árunum 1998-2015, var dæmdur í sex ára bann frá fótbolta vegna spillingar sem hann varð uppvís að.

Putin kippir sér lítið upp við það en þeim Blatter er vel til vina.

„HM er sannkölluð fótboltahátíð. Allir sem fengu boð eru velkomnir sem og gamlir vinir,“ sagði talsmaður Kremlin.

Í samtali við AFP sagði Blatter að Putin hefði einnig boðið Michel Platini, fyrrverandi forseta UEFA, á HM. Heimildarmaður AFP segir hins vegar að Platini, sem er í banni frá fótbolta líkt og Blatter, hafi ekki fengið neitt boð frá Putin.

Blatter segist ekki vita hversu lengi hann verði í Rússlandi á meðan HM stendur. Hann er þó viss um að Rússar verði góðir gestgjafar.

„Ég er handviss að HM 2018 verður frábært mót. Rússland verður að sýna að það geti tekið á móti öllum. Þetta er stór áskorun,“ sagði hinn 81 árs gamli Blatter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×