Erlent

Puigdemont vill stýra Katalóníu frá Brussel

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Carles Puigdemont vill nýta tæknina til að stýra frá Brussel.
Carles Puigdemont vill nýta tæknina til að stýra frá Brussel. Nordicphotos/AFP
Carles Puigdemont sagði í gær að það væri ekkert að því að hann yrði aftur forseti héraðsstjórnar Katalóníu. Jafnvel þótt hann sé nú í útlegð í Brussel, hafi verið rekinn úr embættinu og sé ákærður fyrir uppreisn gegn spænska ríkinu vegna sjálfstæðisyfirlýsingar síðasta árs.

„Þar sem ég er þingmaður er það fullkomlega í lagi að ég verði forseti,“ sagði Puigdemont við Catalunya Radio í gær en hann vill meðal annars styðjast við myndbandssímtöl, verði hann aftur héraðsforseti. „Ýmis stór verkefni nú til dags eru leyst með aðstoð tækninnar.“

Það var spænska ríkisstjórnin sem leysti upp þingið og rak héraðsstjórnina á síðasta ári. Til nýrra þingkosninga var boðað og héldu aðskilnaðarsinnar meirihluta sínum á katalónska þinginu. Puigdemont leiddi næststærsta flokk aðskilnaðarsinna, JxCat.

Vegna þess að Puigdemont óttaðist að vera handtekinn og stungið í fangelsi flúði hann ásamt nokkrum ráðherrum héraðsstjórnarinnar til Brussel á meðan þeir ráðherrar sem voru eftir í Katalóníu voru hnepptir í gæsluvarðhald.

Í viðtali sínu við Catalunya Radio útilokaði Puigdemont að snúa aftur í bráð. „Það er ekki hægt að stýra úr fangelsi,“ sagði hann.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sagði á dögunum algjörlega útilokað að leyfa Puigdemont að setjast aftur á forsetastól. Ef hann myndi sækja þingfundi í gegnum Skype eða sambærileg myndbandssímtalsforrit myndi spænska ríkið kæra katalónska þingið.

Undir þetta tók Inigo Mendez de Vigo, ráðherra og talsmaður spænsku ríkisstjórnarinnar. „Hann verður ekki forseti Katalóníu,“ sagði ráðherrann við Reuters í gær. Bætti de Vigo því við að ríkisstjórnin myndi umsvifalaust kæra skipan hans til dómstóla ef þingmenn kysu að útnefna „flóttamann í Brussel“ forseta héraðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×