Lífið

Puffin Coffee leggur upp laupana

Guðrún Ansnes skrifar
Sverrir tók á móti alls konar fólki og hópum, en sá stærsti taldi þrjátíu manns. "Þá hélt ég að vélin myndi bræða úr sér.“
Sverrir tók á móti alls konar fólki og hópum, en sá stærsti taldi þrjátíu manns. "Þá hélt ég að vélin myndi bræða úr sér.“ Vísir/Andri Marínó
„Ég er sorgmæddur,“ segir Sverrir Rolf Sander, kaffiáhuga- og hugsjónamaður sem fyrir rúmu ári hóf að gefa kaffi út um eldhúsgluggann hjá sér á Baldursgötunni undir nafninu Puffin Coffee.

„Nú er svo komið að ég er fluttur og get því miður ekki haldið áfram, þar sem ég er ekki lengur á jarðhæð,“ segir Sverrir og bætir við að hann hefði eflaust viljað halda áfram ef forsendur leyfðu.

„Ég byrjaði þetta vegna þess að ég var að fara að taka þátt í hjólreiðakeppni og þurfti að safna áheitum til styrktar samtökunum Ambitious about Autism. Mig langaði að gera eitthvað óvenjulegt og opnaði eldhúsgluggann,“ útskýrir Sverrir léttur. Bauð hann gestum upp á fimm bolla valseðil og hver mátti velja einn, og svo réð fólk sjálft hvað það vildi greiða fyrir. „Ég held að hæsta verð sem ég hef fengið fyrir bolla hafi verið nálægt fimm þúsun krónum.“

Sverrir segist ekki hafa verið liðtækur í kaffigerð fyrr en hann ákvað að demba sér í verkið. „Fyrsti espressóinn sem ég á ævi minni hafði gert fór út um gluggann til viðskiptavinar,“ bendir Sverrir á og bætir við: „Ég fékk sama fólkið oft aftur og aftur svo ég hef sennilega verið orðinn ágætur í þessu.“

Sverrir mun herja á Kaupmannahöfn með haustinu þar sem hann sest á skólabekk við Kaupmannahafnarháskóla og útilokar ekki að hann muni taka í kaffivélina ef möguleiki er á, og útilokar alls ekki kaffihjólavagn ef hann hnýtur ekki um íbúð ár jarðhæð í baunalandinu. 


Tengdar fréttir

Rjúkandi heitt í bolla á aðventunni

Ilmandi kaffi og smákökur koma öllum í jólaskap. Við fengum tvo annálaða kaffigúrúa til að útbúa sérstakt jólakaffi þau Sonju Grant og Sverrir Rolf Sander.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×