Innlent

Púað á Bjarna á fundi eldri borgara

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fulltrúar allra stjórnmálahreyfinganna sátu fyrir svörum á fundi Félags eldri borgara og Gráa hersins í Háskólabíói í kvöld.
Fulltrúar allra stjórnmálahreyfinganna sátu fyrir svörum á fundi Félags eldri borgara og Gráa hersins í Háskólabíói í kvöld. skjáskot
Fundargestir á fundi Félags eldri borgara og Gráa hersins í Háskólabíói í kvöld virtust nokkuð ósáttir við svör Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um kaup og kjör aldraðra. Púuðu viðstaddir og hrópuðu og þurfti fundarstjóri að grípa inn í á einum tímapunkti.

Bjarni uppskar lætin eftir að hafa sagt ríkisstjórnarflokkana hafa á þessu kjörtímabili beitt sér fyrir betri kjörum aldraðra og öryrkja. Hann fékk þó ekki að klára setninguna en eftir að fundarstjóri bað um þögn í salnum gafst Bjarna tækifæri til þess að útskýra mál sitt.

Sagði Bjarni að það frumvarp sem liggi nú fyrir á Alþingi hafi verið unnið í víðtæku samstarfi við Landssamband eldri borgara.

„Það sem um er að ræða í þessu frumvarpi er að við ætlum að einfalda til muna bótakerfið og hætta skerðingum krónu fyrir krónu. Við ætlum að hækka heildarbótagrunninn þannig að það fara fimm milljarðar til viðbótar inn í kerfið. Við ætlum að búa þannig um hnútana að yfirgnæfandi meirihluti allra sem í dag fá bætur úr almannatryggingakerfinu mun verða betur settur með þessu frumvarpi,“ sagði Bjarni.

Fulltrúi Framsóknarflokksins á fundinum, Karl Garðarsson, fékk þó ekki eins slæma útreið og Bjarni. Karl sagði Framsóknarflokkinn flokk sem leggi mikla áherslu á velferð og málefni aldraðra og að mikilvægt sé að úr kjörum þeirra verði bætt. Sjálfur hafi hann reynt að berjast fyrir málaflokknum.

„Ég hef komist að því í gegnum mína fjölskyldu og aðra nákomna að fólk þekkir ekki sín réttindi. Þetta er mikill frumskógur þessi tryggingamál aldraðra og ég komst að því þegar ég þurfti að annast nákominn ættingja að ég skildi þetta ekki einu sinni sjálfur og þurfti að leita í kerfinu að því hvaða réttindi þessi aðili ætti. Ég komst að því að það eru fjölmargir aldraðir sem vita þetta ekki. Þeir fara á mis við það sem þeir eiga rétt á í þjóðfélaginu og það er óþolandi,“ sagði Karl.

Fundinn má sjá með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×