Erlent

Prumpulykt getur komið í veg fyrir sjúkdóma

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kannski er þessi ungi maður að bjarga mannslífum.
Kannski er þessi ungi maður að bjarga mannslífum. Vísir/Getty
Vísindamenn frá Exeter-háskólanum hafa fundið út að prumpulykt gæti komið í veg fyrir sjúkdóma. Í prumpulyktinni leynist brennisteinsvetni, einnig þekkt sem vetnissúlfíð. Í stórum skömmdum getur það reynst hættulegt – en í smáum skömmtum gæti það, að mati vísindamannanna, bætt heilsuna. Telja vísindamennirnir að brennisteinsvetnið – í smáum skömmtum – geti komið í veg fyrir krabbamein, minnkað líkur á hjartaáfalli og gigt, svo eitthvað sé nefnt.

Brennisteinsvetnið er talið vernda hvatbera í frumum líkamans og þannig fyrirbyggja tiltekna sjúkdóma.

„Brennisteinsvetnið er þekkt fyrir sína vondu lykt. En það er náttúrlegt – eitthvað sem líkaminn framleiðir,“ segir Dr. Mark Wood, í fréttatilkynningu frá Exeter skólanum. Hann segir að brennisteinsvetnið gæti reynst „hetja í heilbrigðisvísindum“.

Vísindamenn hafa nú þróað efnasamband sem þeir kalla AP39 sem kemur smáum skömmtum af brennisteinsvetninu í frumur líkamans.

Nú gæti máltækið „sá á lykt sem fyrst finnur“ því breyst eitthvað. Kannski verður það kappsmál að eigna sér fúla lykt í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×