Lífið

Próflestur án áreynslu: Sérfræðingar í minni keppa um bestu aðferðina

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Prófatímabilið stendur yfir um þessar mundir.
Prófatímabilið stendur yfir um þessar mundir. Vísir/Getty
Hvað hentar þér best í lærdómnum, að svífa á öldum minnisins, neyta námsefnisins eins og þú værir á hlaðborði, að segja sögu eða taka fáfræði þinni opnum örmum?

Þetta eru allt aðferðir sem hafa gagnast í námi þar sem leggja þarf ýmis atriði á minnið en útlistun á þeim hér að neðan. Aðferðirnar eru afurðir samkeppni sem minnissérfræðingarnir Ben Whately og Ed Cooke ýttu úr vör ásamt vísindamönnum við University College London.

Samkeppnin, sem í leiðinni er viðamikil rannsókn, miðar að því að finna bestu leiðirnar til þess að auka áhrif þeirra minnisaðferða sem þeir hafa skapað eftir áralangar rannsóknir. David Robson hjá BBC skoðaði málið ítarlega.

Þeir eru að leita að auðveldustu leiðunum til að leggja efni á minnið - lærdómur með lágmarks fyrirhöfn.

Ýmsar aðferðir eru mögulegar til að leggja námsefni á minnið.Vísir/Getty
Fyrstu niðurstöður keppninnar liggja fyrir

Félagarnir hönnuðu til að mynda smáforritið Memrise sem hjálpar notendum að leggja alls kyns upplýsingar á minnið. Þeir hafa mikinn áhuga á að hjálpa nemendum að nýta sér minnisaðferðir í lærdómi sínum.

Fjölmargir sérfræðingar í minni voru fengnir til að taka þátt í rannsókninni með því að gera tilraunir til þess að finna auðveldustu og áhrifamestu leiðina til þess að leggja á minnið nýjar upplýsingar.

Fyrstu niðurstöður samkeppninnar liggja nú fyrir og geta auðveldað mörgum nemandanum, hvort sem hann er á lokastigi í háskólanámi eða að læra frönsku sér til gamans, að leggja á minnið nauðsynlegar upplýsingar.

Samkeppnin gekk út á að taka 80 orð á litháensku, læra þau á klukkutíma og muna þau síðan viku síðar. Sérfræðingarnir sem tóku þátt fengu úrtak sem nýtti þá aðferð sem þeir lögðu í keppnina og hins vegar hóp sem nýtti enga sérstaka aðferð.

Mikilvægt er að læra mismunandi búta af heildarnámsefninu hverju sinni til að muna betur það sem lært er.Vísir/Getty
Nokkrar aðferðir duga best og virka hraðast

Mörg liðanna duttu út þegar í ljós kom að aðferðir þeirra dugðu lítið sem sýnir hversu erfitt það getur verið að leggja hluti á minnið. Þau sem eftir stóðu og náðu árangri virtust ekki beita einni sérstakri aðferð heldur samsetningu af eftirfarandi aðferðum:

1) Taka fáfræðinni opnum örmum

Að prófa sjálfan sig á námsefninu er ein af bestu leiðunum til þess að auðvelda upprifjun seinna meir. Þessi aðferð leiddi í ljós árangur þegar viðföngin voru látin giska á þýðingu litháensku orðanna. „Þau munu alltaf hafa rangt fyrir sér í upphafi,” sagði David Shanks, einn vísindamannanna sem starfa hjá University College London. En rannsóknir sýna að með því að hafa rangt fyrir sér í upphafi manstu frekar orðið. „Það er miklu betri árangur en ef manneskjan hefði þegar verið búin að læra orðið,” útskýrði Shanks.

Það virðist vera að það að viðurkenna eigin vankunnáttu fái hugann til þess að byrja að vinna og þannig tvöfaldast líkurnar á að maður muni efnið. Þetta er þekkt í sálfræðinni, þegar verkefni er örlítið erfiðara þá nær það athygli manns og þannig byggir hugurinn betri undirstöðu undir upprifjun seinna meir.

2) Svífðu eins og á brimbretti á öldum minnisins

Það er auðvelt að eyða tíma í að læra of mikið. Margir þátttakendur í samkeppninni skrifuðu algórisma eða reiknirit fyrir minnið til að sjá hversu sterkt það er fyrir hvert 80 orðanna.

Þannig er hægt að vekja minnið á ný þegar gleymskan er farin að ná yfirhöndinni. Það er því mikilvægt að nýta innsæið til þess að læra þegar minnið er upp á sitt besta en stíga til hliðar þegar einbeitingin er lítil. Rétt eins og brimbrettamaður les hreyfingu öldunnar og stígur á brettið þegar aldan rís.

Einn þátttakandi samkeppninnar prófaði sig áfram með að gefa viðfangsefnunum stuttar pásur á milli þar sem þau horfðu á myndband af fossi á meðan heilinn meðtekur upplýsingarnar. Það er ekki aðeins mikilvægt að taka stuttar pásur við lærdóminn heldur skiptir máli að nýta þær rétt.

Nýttu innsæið eins og brimbrettagæi eða gella í sjónum.Vísir/Getty
3) Hlaðborðslærdómur

Margir þátttakendur töldu vænlegt til árangurs að skipta efninu upp í ákveðin þemu og læra hvert og eitt í sitthvoru lagi. Þannig skiptu þau orðunum upp í flokka og létu viðfangsefnin læra þau þannig.

En í ljós kom að í raun er gagnlegra að fara í gegnum öll 80 orðin og læra þau þannig. Whately, fyrrnefndur forsprakki rannsóknarinnar, bendir á að þegar minnissérfræðingar leggja spilastokk á minnið gera þeir það í heilu lagi en ekki með því að skipta búnkanum upp í liti eða sortir.

Rannsóknin mælir með að í hverri lærdómslotu passi nemandi upp á fjölbreytileikann. Þannig er betra að verja litlum tíma í einu í nokkur mismunandi efni yfir langan tíma heldur en að verja öllum þeim tíma í eitt efni. Sjáðu þetta fyrir þér eins og að borða á hlaðborði frekar en að setjast til borðs og neyta máltíðar þar sem réttirnir koma hver á fætur öðrum.

4) Að segja sögu

Hvers konar útlistun á námsefninun getur virkjað að nýju taugamótin og gulltryggt að upplýsingarnar séu fastar í minninu.

Einn þátttakendanna bað til að mynda viðfangsefnin um að mynda sögu með orðunum sem viðkomandi var að læra. Annar nýtti tækni þar sem viðfangsefnið er látið sjá fyrir sér ákveðið herbergi þar sem orðin eru staðsett víðsvegar um herbergið og þannig lögð á minnið.

Í síðarnefndu aðferðinni teiknuðu tilraunahöfundar upp mynd af stofu. Síðan gáfu þeir viðfangsefnunum til dæmis litháenska orðið „lova” sem þýðir rúm. Þá gætirðu ímyndað þér elskhuga þinn eða „lover” á sófarúmi í stofunni. Þá ætti að vera auðvelt að muna merkingu orðsins þegar leitað er í minninu.

Þessi vinna er aðeins upphafið, næsta skref er síðan að leggja hugmyndirnar fyrir notendur Memrise síðunnar og þar keppa þær um verðlaunin.

Aðferðirnar eiga að henta ungum sem öldnum í öllum tilgangi.Vísir/Getty





Fleiri fréttir

Sjá meira


×