Innlent

Priyanka hefur ekkert heyrt frá fjölskyldu sinni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
"Ég hef áhyggjur af mömmu minni þar sem hún var í hjartaaðgerð fyrir jól og hún þarf að fara reglulega á spítala í meðferð, en núna er líklega ekkert pláss fyrir hana,“ segir Priyanka.
"Ég hef áhyggjur af mömmu minni þar sem hún var í hjartaaðgerð fyrir jól og hún þarf að fara reglulega á spítala í meðferð, en núna er líklega ekkert pláss fyrir hana,“ segir Priyanka. vísir/anton brink
Hin nepalska Priyanka Thapa hefur ekkert heyrt frá fjölskyldu sinni frá því að jarðskjálftinn reið yfir landið á laugardag. Hún segist þó hafa heyrt frá öðrum aðstandendum í Nepal að þau séu heil á húfi.

Móðir Priyönku og systir búa í Katmandú, höfuðborg Nepal, því svæði sem varð hvað verst úti í skjálftanum. Nær ekkert samband er á svæðinu en gerir hún ráð fyrir að þær haldi til í neyðarskýlum í borginni.

„Ég er búin að reyna að hringja síðan á föstudaginn en hef ekkert heyrt frá þeim, en mig langar til að heyra í þeim. Ég hef áhyggjur af mömmu minni þar sem hún var í hjartaaðgerð fyrir jól og hún þarf að fara reglulega á spítala í meðferð, en núna er líklega ekkert pláss fyrir hana,“ segir Priyanka í samtali við Vísi.

„Ég á fullt af vinum sem eru að deila myndum af Facebook, svo ég geti fylgst með. Þau hafa sagt að það sé ekkert pláss á spítala og það vantar fullt af lyfjum svo ég er hrædd um að mamma mín geti ekki fengið þá meðferð sem hún þarf,“ bætir hún við.

Priyanka skoðar nú möguleikann á að fara út að finna fjölskyldu sína og aðstoða fólk í neyð. Hún ólst upp í Katmandú, yngst fjögurra systkina. Árið 2011 stóð hún frammi fyrir því að verða senda aftur til síns heima, þar sem hún átti að giftast fertugum karlmanni, en þá var hún 24 ára. Hún hafði þá dvalist á Íslandi í nokkurn tíma en var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Mál hennar var tekið upp aftur ári síðar og fékk hún að lokum dvalarleyfið. Hún var í opinskáu viðtali við Fréttablaðið árið 2013 en það má lesa hér.



Rauði krossinn heldur úti leitarþjónustu í Nepal. Opnuð var vefsíða þess efnis en hana má sjá hér. Þá ákvað Rauði krossinn á Íslandi í dag að senda fulltrúa í hjálparstarf í Nepal og heldur sá fyrsti utan á morgun.

Einnig er hægt að styrkja starf Rauða krossins í Nepal með því að hringja í:

904-1500 (framlag: 1.500)

904-2500 (framlag: 2.500)

904-5500 (framlag: 5.500)

Hægt er að leggja inn fé á reikning Rauða krossins:

0342-26-12

kt. 530269-2649

Unicef hefur einnig sett af stað söfnun en séu skilaboðin UNICEF send í símanúmerið 1900 verða 1.500 krónur skuldfærðar af símreikningi. 

 


Tengdar fréttir

Besti staðurinn til að vera á

Hin nepalska Priyanka Thapa fékk tímabundið dvalarleyfi hér á landi á síðasta ári af mannúðarástæðum. Nú lærir hún lyfjafræði við HÍ og brillerar á prófum, auk þess að sinna fötluðum samnemanda sínum sem einnig gengur vel í náminu.

Priyanka komin með dvalarleyfi: "Það skín sól í hjarta mínu"

Priyanka Thapa hefur fengið dvalarleyfi hér á landi af mannúaðarástæðum en eftir að henni var synjað um dvalarleyfi fyrir um ári síðan var málið tekið upp aftur. "Draumar rætast eftir allt saman," segir Priyanka á Facebook-síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×