Enski boltinn

Poyet vongóður um að Borini samþykki tilboð Sunderland

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fabio Borini í leik Liverpool og Preston.
Fabio Borini í leik Liverpool og Preston. Vísir/Getty
Gus Poyet er vongóður um að Fabio Borini samþykki samningstilboð Sunderland á næstu dögum og gangi til liðs við félagið.

Félagslið Borini, Liverpool, hefur þegar samþykkt tilboð upp á 14 milljónir frá Sunderland en hann hefur velt tilboðinu fyrir sér undanfarna daga.

Borini lék alls 40 leiki í öllum keppnum með Sunderland á síðasta tímabili á láni frá Liverpool en í þeim skoraði hann tíu mörk. Komu mörg þeirra á mikilvægum stundum, meðal annars eina mark liðsins í úrslitum deildarbikarsins.

Talið er að Borini vilji sanna sig hjá Liverpool en ljóst er að samkeppnin hjá rauða hernum er gríðarleg eftir að félagið bætti við sig Rickie Lambert frá Southampton en félagið mun að öllum líkindum staðfesta félagsskipti Loic Remy frá QPR í dag.

„Boltinn er í hans höndum. Við höfum útskýrt fyrir honum hvernig okkar sýn er og vonandi gengur þetta upp á endanum. Við vonumst til að klára þetta sem fyrst en ef hann samþykkir tilboðið ekki færum við okkur áfram og reynum við næsta skotmark,“ sagði Poyet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×