Innlent

Póstkortið lifir góðu lífi

Birta Björnsdóttir skrifar
Á Þjóðminjasafni Íslands má nú skoða rúmlega eitt þúsund póstkort, það elsta frá árinu 1896 og það yngsta frá því í fyrra.

„Hér er að finna drög að sögu póstkortsins á Íslandi," segir Inga Lára Baldvinsdóttir, sviðsstjóri Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafninu. 

„Það er hægt að horfa á þessa sýningu út frá gríðarlega mörgum sjónarhornum. Þú getur farið í gegnum hana og hugsað bara um Íslandssöguna. Þú getur líka hugsað um landafræðina og kynnt þér Ísland í gegnum póstkortin. Svo er hægt að sjá hvernig smekkurinn breytist í útgáfunni sjálfri, hvernig þróunin er í prentiðnaði og svona mætti lengi telja."

Póstkortin hafa verið send manna á milli allt frá því fyrir þarsíðustu aldamót. Þó hefur notkun þeirra breyst.

„Auðvitað hafa aðrir miðlar svolítið stjakað póstkortinu út í horn, sms, tölvupóstur og sími til dæmis. Framanaf hafði fólk ekki aðgang að síma og notar póstkortin til að láta vita af sér, senda stuttar kveðjur á milli eða bera boð um alls konar hluti," segir Inga Lára

„En það sem kemur kannski á óvart er hvað er mikið að gerast ennþá í póstkortinu og hvernig það lifir ennþá af þó það sé sótt að því úr öllum áttum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×