Enski boltinn

Portúgalskur framherji á að fylla skarð Bony

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oliveira í leik með Rennes á síðustu leiktíð.
Oliveira í leik með Rennes á síðustu leiktíð. vísir/afp
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í enska úrvalsdeildarliðinu Swansea City fengu góðan liðsstyrk í gær þegar portúgalski framherjinn Nélson Oliveira gerði lánssamning við félagið. Samningurinn tekur gildi 1. janúar og gildir til loka tímabilsins.

Oliveira kemur frá Portúgalsmeisturum Benfica. Framherjinn hefur þó aðeins leikið 21 leik með aðalliði félagsins, en hann hefur verið lánaður til hinna ýmsu liða á undanförnum árum. Á síðustu leiktíð skoraði hann átta mörk í 36 leikjum með franska liðinu Rennes.

Wilfried Bony, markahæsti leikmaður Swansea á tímabilinu, missir af nokkrum leikjum í janúar og febrúar vegna Afríkukeppninnar og Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea, hefur brugðist við því með því að fá Oliveira til velska liðsins sem er í 8. sæti úrvalsdeildarinnar með 25 stig eftir 17 umferðir.

"Það er ástæðan fyrir því að fengum Nelson, sem er mjög góður leikmaður, til liðs við okkur. Ég hef fylgst náið með honum og er ánægður með félagaskiptin," sagði Monk og bætti við:

"Það var mikilvægt að fá annan framherja með Bafetimbi Gomis til að fylla skarð Bonys."

Oliveira, sem er 23 ára, hefur leikið 14 landsleiki fyrir Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×