Fótbolti

Portúgal ekki í miklum vandræðum með Norðmenn án CR7

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Portúgalar fagna einu marka sinna í kvöld.
Portúgalar fagna einu marka sinna í kvöld. Vísir/Getty
Portúgalar unnu 3-0 sigur á Norðmönnum í vináttulandsleik í Portúgal í kvöld en Portúgal er einmitt fyrsti mótherji Íslands á Evrópumótinu í Frakklandi 2016.

Sigur portúgalska liðsins var kannski stærri en frammistaðan gaf til um en Portúgalar nýttu færin sín mjög vel í kvöld á meðan Norðmenn fóru illa með sín.

Leikurinn fór fram á Estádio do Dragao í Porto en næst á dagskrá hjá Norðmönnum er að taka á móti Íslandi í vináttulandsleik á miðvikudagskvöldið.

Cristiano Ronaldo var ekki með portúgalska liðinu í leiknum því hann var upptekinn við það tryggja Real Madrid sigur í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Ricardo Quaresma kom Portúgal í 1-0 á 13. mínútu með fallegu marki og þannig var staðan í hálfleik. Joshua King fékk frábært færi til að jafna fyrir hlé og eftir góða byrjun Norðmanna á seinni hálfleik þá átti Veton Berisha skalla í slá á 57. mínútu.

Portúgalska liðið skoraði síðan tvö mörk með fimm mínútna kafla og gerðu út um leikinn. Raphaël Guerreiro skoraði fyrst með skoti beint úr aukaspyrnu á 65. mínútu og Éder, liðsfélagi fyrrum liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea City, skoraði síðan þriðja markið eftir varnarmistök á 70. mínútu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×