Innlent

Pópúlískir flokkar varnarviðbrögð minnihlutans

Una Sighvatsdóttir skrifar
Stjórnmálaflokkar sem vilja beita sér gegn fjölmenningarsamfélaginu hafa sótt í sig veðrið á Norðurlöndum og mælast nú alls staðar með yfir 10% fylgi. Þetta þarf þó ekki að þýða að umburðarlyndi fari minnkandi.

„Ég held að menn séu að ýkja verulega að viðhorf af þessu tagi séu að styrkjast á Norðurlöndum og í Evrópu. Það er birtingarmyndin sem er að breytast, ekki viðhorfin, að mínu mati," sagði Ólafur Þ. Harðarson í samtali við fréttstofu að loknum fundi í Háskóla Íslands í dag undir yfirskriftinni Fjölmenning, stjórnmál, fjölmiðlar. Fundurinn er sá fyrsti í fundaröð um fjölmenningu sem háskólinn hefur boðað til.

Viðhorf sem eru að tapa

Ólafur segir tilkomu sérstakra lýðhyggjuflokka frekar vera varnarviðbrögð viðhorfa sem hafi alltaf verið til staðar en eigi undir högg að sækja, hóps sem finni að skoðanir hans um samfélagsgerð séu að verða undir Hann bendir á að þótt pópúlískir flokkar séu að fá 10-20 prósent fylgi á Norðurlöndum þá þýði það um leið að 80-90 prósent kjósenda þar kjósi aðra flokka.

„Þannig að í staðinn fyrir að þessi flokkar séu til marks um sókn þessara viðhorfa eru þeir til marks um að þessi viðhorf eru í vörn, þessi viðhorf hafa verið að tapa í samfélaginu undanfarna áratugi."

Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði segir mikilvægt að muna að kynþáttafordómar hafi alltaf verið til staðar í menningu Norðurlanda
Fordómarnir réttlættir

Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði segir þá sýn vera ríkjandi á Norðurlöndum að þau hafi ekkert haft með nýlendustefnu Vesturlanda að gera. Hinsvegar hafi bæði fræðimenn og ráðamenn á Norðurlöndunum, þar með talið Íslandi, átt mjög virkan þátt í því að breiða út boðskap kynþáttahyggju frá lokum 19. aldar og í byrjun þeirrar 20.

„Maður sér það í umræðum á netinu hér á landi að fólk afsakar oft ummæli með því að Íslendingar hafi ekki átt neinar nýlendur, Ísland hafi sjálft verið nýlenda svo það hafi aldrei verið kynþáttahyggja hér og þess vegna sé allt í lagi að nota niðrandi hugtök," segir Kristín.

Rasismi aldrei snúist eingöngu um húðlit

Fólk reyni þannig að skilja sig frá viðhorfum fortíðar og í dag hafni flestir því að viðhorf þeirra endurspegli kynþáttahyggju og geti þar með ekki talist fordómafull. Hinsvegar hafi rasismi aldrei snúist eingöngu um húðlit. Hugmyndir um líkamlegt atgervi annars vegar og menningu hinsvegar hafi alltaf verið samstíga.

„Þetta er svona kannski megineinkenni á kynþáttahyggjunni eins og hún birtist í dag, eftir að tilvísanir í útlit og litarhátt þóttu óásættanlegar, að þá hafa menning og trúarbrögð fengið stærri og stærri hlut sem útskýring á vanþróun ákveðinna hópa."

Í dag séu það einkum múslímar sem séu útskúfaðir allt frá árásunum á tvíburaturnana 11. september, ekki vegna húðlitar heldur vegna þess að menning þeirra og trú sé sögð ósamrýmanleg þessum heimshluta. „Og núna í ljósi hryðjuverkanna sem áttur sér nýlega stað í París þá sjáum við líka að fordómar í garð þessa hóps í Evrópu hafa aukist mjög mikið, þrátt fyrir að þetta fólk hafi ekkert haft með það að gera sem þar gerðist, ekki neitt.



Leiðrétt 26.11.2015

Í fyrri útgáfu fréttar var ranglega farið með fylgistölur Svíþjóðardemókrata í þingkosningum. Það hefur hér með verið fjarlægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×