Lífið

Pönkið þarf ekki blessun

,,Húsið er bara einstakur tónleikastaður þar sem nándin milli gesta og listamanna skipar sérstakt andrúmsloft. Þar var einfaldlega bara kominn tími á að sinna pönkinu," segir Beggi Smári, skipuleggjandi pönkveislunnar á Dillon á morgun.
,,Húsið er bara einstakur tónleikastaður þar sem nándin milli gesta og listamanna skipar sérstakt andrúmsloft. Þar var einfaldlega bara kominn tími á að sinna pönkinu," segir Beggi Smári, skipuleggjandi pönkveislunnar á Dillon á morgun. MYND/STEFÁN
Blásið verður til mikillar pönkveislu á morgun fimmtudag á skemmtistaðnum Dillon í Reykjavík þegar fimm ólíkar sveitir stíga á svið, þar á meðal pönkböndin goðsagnakenndu Q4U og Fræbbblarnir.

Dillon hefur lengi lagt áherslu á að sinna öllu litrófi íslenskrar tónlistar og er pönkið þar engin undantekning, segir Beggi Smári, skipuleggjandi pönkveislunnar og umsjónarmaður lifandi viðburða á Dillon. „Pönkið hefur alltaf átt heima á Dillon og hnitmiðaðar hátíðir eins og þessar hafa alltaf slegið í gegn hér. Húsið er einstakur tónleikastaður þar sem nándin milli gesta og listamanna skipar sérstakt andrúmsloft. Það var einfaldlega bara kominn tími á að sinna pönkinu.“

Fimm pönkbönd koma fram á morgun. Fyrst ber að nefna íslensku pönksveitirnar Q4U og Fræbbblana sem báðar þarf vart að kynna enda hafa þær átt þátt í að móta íslenska pönktónlist eins og við þekkjum hana í dag að hans sögn.

Finnska pönkbandið Turpakäräjät er á tónleikaferð um landið, Set Iceland on fire.
Miðaldra tuðarar

Hljómsveitin Tuð kemur einnig fram en hún gaf út sína fyrstu plötu í fyrra sem ber heitið Þegiðu! „Svo þeirra eigin orð séu notuð þá eru þeir í Tuð lífsleiðir miðaldra karlmenn sem tuða yfir því helsta sem angrar þá með misalvarlegum textum og grípandi melódíum.“

Dýrðin er öllu eldri en hún hefur starfað frá árinu 1994. „Stefna þeirra í upphafi var að búa til sætt popp en með eintóma bílskúrspönkara innanborðs urðu lætin meiri en góðu hófi gegndi. Niðurstaðan varð því hratt popp-pönk rokk með ballöðuívafi hér og þar. Um miðjan febrúar kom út nýjasta plata þeirra, Your Favorite Band.“

Meira en músik

Eina erlenda bandið á tónleikunum er frá Finnlandi og heitir Turpakäräjät en sveitin er nú í tónleikaferð um Ísland sem hún kallar „Set Iceland on fire“. Beggi Smári vitnar í Kalle Keinonen, söngvara hljómsveitarinnar: „Pönk er ógnarsterkt tæki til að tjá skoðanir og hugsanir um almenn málefni og persónuleg vandamál. Að segja nei, þetta er ekki rétt! Pönk er tól sem leyfir þér að gera hvað í fjandanum sem þú vilt gera. Þú þarft engan til að veita þér blessun sína fyrir að spila pönk!“

Fræbbblana þarf vart að kynna enda áttu þeir þátt í að móta íslenska pönktónlist.
Hann býst við góðri stemningu á morgun. „Pönkið er löngu búið að síast inn í músík sem við skilgreinum ekki endilega sem pönk í dag. Unga fólkið hlustar á músík sem er undir sterkum pönkáhrifum þótt það kannski skilgreini sig ekki sem pönkara. Pönkið var og er auðvitað miklu meira en bara músík. Það er viðhorf og lífsstíll. Við eigum eftir að sjá fólk á öllum aldri á fimmtudaginn, bæði á sviðinu og úti í sal.“

Tónleikarnir byrja klukkan 20 og er frítt inn á þá eins og alla tónleika hjá Dillon.

Nánari upplýsingar inn á Face­book-síðu Dillon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×