Handbolti

Pólverjar sendu Staffan og sænska landsliðið heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Staffan Olsson.
Staffan Olsson. Vísir/Getty
Pólverjar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum á HM í handbolta í Katar eftir fjögurra marka sigur á Svíþjóð, 24-20, í sextán liða úrslitunum í dag.  Pólverjar mæta Króatíu í átta liða úrslitunum en Króatar slógu Brasilíumenn út í gær.

Staffan Olsson og Ola Lindgren, þjálfarar sænska landsliðsins, þurfa því að sætta sig við að komast ekki lengra en í sextán liða úrslitin en sænska liðið byrjaði mjög vel á mótinu og einhverjir handboltaspekingar voru farnir að sjá þá fara mjög langt.

Bræðurnir Michal Jurecki og Bartosz Jurecki skoruðu báðir fimm mörk og voru markahæstir hjá pólska landsliðinu. Besti maður liðsins var þó markvörðurinn Slawomir Szmal.

Kim Andersson spilaði ekkert með Svíum vegna meiðsla og munaði mjög miklu um það en markahæstur var Fredrik Petersen með fimm mörk.

Svíar voru yfir rétt í byrjun leiks en Pólverjar tóku síðan frumkvæðið og náðu síðan mest þriggja marka forskoti, 8-5, þegar sjö mínútur voru til hálfleiks.

Svíarnir áttu síðan frábæran kafla í lok fyrri hálfleiks þar sem sænska liðið vann fimm mínútna kafla 6-1 og komst tveimur mörkum yfir. Svíar voru síðan 11-10 yfir í hálfleik.

Svíar náðu tveggja marka forskoti í upphafi seinni hálfleiksins en pólska liðið komst aftur yfir í leiknum, 15-14, með því að skora þrjú mörk í röð á fjögurra mínútna kafla.

Pólverjar voru með frumkvæðið í leiknum eftir það og kláruðu leikinn sannfærandi á lokasprettinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×