Erlent

Pólitísk kollsteypa eftir þingkosningar á Spáni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Pablo Iglesias og flokkur hans Podemos fagna góðum árangri.
Pablo Iglesias og flokkur hans Podemos fagna góðum árangri.
Ríkisstjórn Spánar er fallin eftir að Spánverjar gengu að kjörborðinu í gær. Þjóðarflokkurinn, flokkur Marianos Rajoy forsætisráðherra, náði hreinum meirihluta í neðri deild spænska þingsins árið 2011 en hefur nú misst meirihlutann. Þjóðarflokkurinn er þó stærstur allra flokka með 26,8 prósent atkvæða og gæti freistað þess að mynda minnihlutastjórn. Þetta kom fram í útgönguspám en gert er ráð fyrir að endanleg úrslit liggi fyrir á næstu dögum.

Enginn einn flokkur náði hreinum meirihluta og því er ljóst að flokkarnir þurfa að ná saman um samsteypustjórn. Það verður í fyrsta sinn sem samsteypustjórn er mynduð á Spáni frá því að lýðræði var komið á fót árið 1978.

Tveir flokkar fögnuðu miklum árangri í kosningunum. Vinstri flokkurinn Podemos fékk 21,7 prósent atkvæða og flokkurinn Ciudadanos fékk 15,2 prósent atkvæða. Podemos er róttækur vinstriflokkur sem hefur gagnrýnt spillingu á Spáni og óréttlæti aðhaldsa­ðgerða stjórnvalda og Evrópusambandsins. Podemos svipar mikið til SYRIZA í Grikklandi enda eru Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, og Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, mestu mátar.

Ciudadanos er frjálslyndur vinstriflokkur sem var stofnaður til að berjast gegn þjóðernishyggju í Katalóníu og berst fyrir aukinni evrópskri samvinnu.

Þá fékk Sósíalistaflokkurinn verstu útreið í sögu sinni með 20,5 prósentum atkvæða.

Efnahagsmál Spánar voru í brennidepli en ríkisstjórn Rajoys hefur staðið í erfiðum niðurskurði og skattahækkunum undanfarin ár til að tryggja afkomu Spánar eftir efnahagshrunið. Rajoy hefur sagt að ríkisstjórn hans hafi skilað góðu búi en til að mynda er 3,3 prósenta hagvexti spáð á Spáni á næsta ári.

Þrátt fyrir að hafa komið í veg fyrir þjóðargjaldþrot er atvinnuleysi 21 prósent ásamt því að ólga vegna sjálfstæðistilburða Katalóníu er mikil. Þetta hefur vakið upp mikla óánægju innan Spánar og virðast kjósendur afhuga hinum hefðbundnu flokkum, Þjóðarflokknum og Sósíalistaflokknum.

Óvíst er hvert leiðtogarnir muni leita til að freista þess að mynda ríkisstjórn en margir telja Podemos vera eitt allsherjar spurningarmerki og til að mynda birti dagblaðið El Mundo fyrirsögnina „Hættan á óstjórn er raunveruleg“ á forsíðu sinni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×