Innlent

Pokastöðvar settar upp á suðurhluta Vestfjarða

Aron Ingi Guðmundsson skrifar
Viðskiptavinirnir geta fengið poka að láni hér eftir.
Viðskiptavinirnir geta fengið poka að láni hér eftir. Vísir/aron
Verslanir, bókasöfn og þjónustufyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum eru farin að bjóða viðskiptavinum sínum upp á taupoka að láni undir vörur sem þeir kaupa. Pokarnir voru saumaðir í sjálfboðavinnu og eru gerðir úr gömlum bolum og gardínum. Hugmyndin er að viðskiptavinir verslananna geti tekið poka með sér úr versluninni endurgjaldslaust og skilað aftur og settar hafa verið upp svokallaðar pokastöðvar í verslunum á svæðinu.

Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni sem samtökin Boomerang Bags standa fyrir og gengur út á að minnka plastpokanotkun í heiminum. Pokarnir eru því merktir samtökunum og því hvaðan úr heiminum þeir koma. Hægt er að skila pokum sem fengnir voru að láni víðsvegar í heiminum, en pokastöðvar á vegum Boomerang Bags hafa verið settar upp m.a. í Kanada, Mexíkó, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi.

Lauslega er áætlað að þær verslanir sem taka þátt í verkefninu á sunnanverðum Vestfjörðum selji um 70.000 plastpoka á ári. Miðað við 500 heimili þá eru það 140 pokar á hvert heimili og vonast er til þess að þetta átak muni minnka þá plastpokanotkun umtalsvert.

Það er styrkur hópur sem stendur að þessu verkefni og búið er að útbúa rúmlega 500 poka fyrir svæðið. Sjálfboðaliðarnir hafa hist og saumað síðustu vikur í samkomustöðunum Húsinu á Patreksfirði, Vindheimum á Tálknafirði og Læk á Bíldudal og munu halda því áfram eins og með þarf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×