Enski boltinn

Pogba til Manchester United fyrir 80 milljónir punda?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba.
Paul Pogba. Vísir/Getty
Paul Pogba er að fara að mæta íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi á sunnudaginn en hann gæti orðið leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United eftir að Evrópumótinu lýkur.

Enska blaðið Daily Star hefur heimildir fyrir því að Paul Pogba sé þegar kominn í viðræður við Manchester United um að gerast leikmaður liðsins.

Manchester United er tilbúið að slá félagsmet sitt og borga 80 milljónir punda fyrir franska miðjumanninn. Það eru meira en þrettán milljarðar í íslenskum krónum.

Paul Pogba var reyndar einu sinni leikmaður Manchester United en félagið leyfði honum að fara frítt árið 2012.

Paul Pogba er enn bara 23 ára gamall en hann hefur spilað stórt hlutverk með Juventus undanfarin fjögur tímabil og unnið ítalska meistaratitilinn öll fjögur árin. Paul Pogba var með 8 mörk og 13 stoðsendingar í 35 leikjum á nýloknu tímabili.

Juventus hefur fengið 2,44 stig að meðaltali úr þeim 124 leikjum sem kappinn hefur spilað með liðnu frá 2012 og hann er með 28 mörk og 31 stoðsendingu í þeim.

Það er ljóst að menn á Old Trafford ætla að styrkja liðs sitt með stjörnuleikmönnum en í gær tilkynnti sænski súperframherjinn Zlatan Ibrahimovic að væri að leiðinni í Manchester United.

Zlatan Ibrahimovic og Paul Pogba hafa einmitt sama umboðsmann, Mino Raiola, og hann er einnig lykilmaður í að koma Henrikh Mkhitaryan frá Borussia Dortmund til Manchester United.

Manchester United hefur mest borgað 59,7 milljónir punda fyrir einn leikmann en það var þegar félagið keypti Angel di Maria frá Real Madrid 2014.

Paul Pogba.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×