Enski boltinn

Pochettino vill ekki að Kane spili á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarna Kane hefur skinið skært í vetur.
Stjarna Kane hefur skinið skært í vetur. vísir/getty
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, vonast til að framherjinn Harry Kane fá frí frá EM U-21 árs landsliða í Tékklandi í sumar.

Kane hefur slegið efirminnilega í gegn með Tottenham á þessari leiktíð og er kominn með 24 mörk í öllum keppnum, þar af 14 í ensku úrvalsdeildinni.

Kane hefur spilað mikið í vetur og Pochettino óttast að álagið verði of mikið á þennan 21 árs leikmann en EM í Tékklandi hefst 17. júní og stendur til 30. sama mánaðar.

„Ég myndi vilja sjá Harry fá mánaðarfrí eftir að tímabilinu lýkur, fyrir hvíld og endurheimt.

„Við þurfum að ná samkomulagi við leikmanninn og enska knattspyrnusambandið,“ sagði argentínski knattspyrnustjórinn sem óttast að Kane muni hreinlega brenna út spili hann með Englandi í sumar.

Kane skoraði fimm mörk fyrir enska U-21 árs landsliðið í undankeppni EM en hann hefur alls skorað átta mörk í tíu leikjum með liðinu.

„Þetta er mín skoðun en ég geri mér grein fyrir að við þurfum að styðja við bakið á landsliðinu og taka ákvörðun sem hentar öllum aðilum,“ Pochettino og bætti við:

„Knattspyrnusambandið vill að leikmaðurinn spili en á sama tíma er þeim umhugsað um þroska og þróun ungra, enskra leikmanna.“

Kane hefur ekki enn leikið með enska A-landsliðinu en líklegt þykir að hann verði í landsliðshópnum sem mætir Litháen og Ítalíu síðar í þessum mánuði.

Kane verður væntanlega í eldlínunni þegar Tottenham tekur á móti Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5. Einnig verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.

Kane skorar fyrir England gegn Frökkum í U-21 árs landsleik.vísir/getty

Tengdar fréttir

Kane: Enginn sem hengdi haus

Harry Kane bjargaði stigi fyrir Tottenham þegar hann skoraði í uppbótartíma í leik liðanna á White Hart Lane í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×