Fótbolti

Pochettino: Vantaði alla ástríðu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mauricio Pochettino svekktur á hliðarlínunni í gærkvöldi.
Mauricio Pochettino svekktur á hliðarlínunni í gærkvöldi. vísir/getty
Endurkoma Tottenham í Meistaradeild Evrópu í fótbolta gekk ekki vel en liðið tapaði á „heimavelli“ fyrir Monaco frá Frakklandi, 2-1. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.

Tottenham var miklu betra liðið í leiknum og var meira með boltann en skapaði lítið af færum og fékk á sig tvö mörk þökk sé slökum varnarleik.

Lundúnarliðið spilar heimaleiki sína í Meistaradeildinni á Wembley þar sem unnið er að endurbótum á White Hart Lane en 85.000 manns voru mættir á leikinn í gær.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra Tottenham, datt ekki til hugar eftir leikinn að nota Wembley sem ástæðu fyrir tapinu vegna þeirrar staðreyndar að liðið fékk ekki alvöru heimaleik.

„Það er bara afsökun. Fótboltinn er spilaður á vellinum - á grasinu. Við verðum að bæta okkur og læra að við getum ekki fengið á okkur svona mörk eins og við gerðum,“ sagði Argentínumaðurinn eftir leikinn.

„Við verðum að vera ákveðnari þegar við erum með boltann og líka þegar við komumst í stöður þar sem við getum skorað.“

„Við þurfum að sýna meira hungur og meiri ástríðu. Okkur skorti alla ástríðu í dag,“ sagði Mauricio Pochettino.


Tengdar fréttir

Monaco skellti Tottenham á Wembley

Tottenham fer illa af stað í Meistaradeild Evrópu en liðið beið lægri hlut, 1-2, fyrir Monaco í E-riðli í kvöld.

Falcao getur komist aftur í heimsklassa

Kólumbíski framherjinn, Radamel Falcao, snýr aftur til Englands í kvöld er hann spilar með Monaco gegn Tottenham í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×