Enski boltinn

Pochettino: Stuðningsmennirnir eiga rétt á að láta sig dreyma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pochettino veifar til stuðningsmanna Tottenham eftir sigurinn á Man City.
Pochettino veifar til stuðningsmanna Tottenham eftir sigurinn á Man City. vísir/getty
Tottenham Hotspur vann gríðarlega mikilvægan sigur á Manchester City í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í gær.



Daninn Christian Eriksen skoraði sigurmark Spurs sem er nú aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Leicester City sem tapaði fyrir Arsenal í gær.

„Þetta var mjög mikilvægur leikur. Maður fann að þetta var sérstakur leikur og mikil prófraun fyrir okkur. Ég er mjög ánægður fyrir hönd leikmannanna,“ sagði Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, eftir leikinn í gær.

Tottenham hefur ekki unnið enska meistaratitilinn síðan 1961 en stuðningsmenn liðsins vonast til að sú bið taki enda í vor.

„Ég vil ekki tala um framtíðina, það er mikilvægara fyrir okkur að halda áfram að leggja okkur fram og sýna að við getum unnið svona leiki,“ sagði Pochettino og bætti við:

„Stuðningsmennirnir eiga rétt á að láta sig dreyma. Þeir hafa stutt dyggilega við bakið á okkur og ég vil þakka þeim fyrir stuðninginn.“

Tottenham mætir Fiorentina í Flórens í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn kemur og þremur dögum seinna tekur liðið á móti Crystal Palace í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×