Enski boltinn

Pochettino: Kane besti leikmaður úrvalsdeildarinnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, segir að Harry Kane eigi frekar skilið að vera valinn leikmaður ársins frekar en Eden Hazard.

Kane og Hazard hafa báðir verið tilnefndir sem besti ungi leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar og einnig sá besti. Pochettino segir að sinn lærisveinn eigi frekar skilið að hreppa hnossið.

„Hazard er mjög góður leikmaður. Hann er virkilega góður leikmaður, en áhrif Kane á enska knattspyrnu eru mikil," sagði Pochettino.

„Ég held að áhrifin séu þó meiri hjá Kane heldur en Hazard. Alilr vita að Hazard er frábær leikmaður, en það bjuggust ekki margir við þessari frammistöðu sem Kane hefur sýnt. Það er munurinn, finnst mér."

Kane getur orðið fyrsti leikmaðurinn til að ná 30 mörkum á tímabilinu síðan Gary Lineker var og hét, en Tottenham mætir lánlausu liði Newcastle á sunnudag.

„Þetta væri stórt og mikið fyrir klúbbinn og Harry Kane. Þetta er mikilvægt fyrir liðið. Ef hann nær 30 mörkum þá er það sögulegur árangur."

Roberto Soldado og Emmanuel Adebayor hafa skiljanlega báðir verið úti í kuldanum í vetur enda Kane verið magnaður.

„Þú veist ekki hvað gerist á næsta tímabili, en þegar þú sýnir tölfræðina frá Harry Kane þá sérðu að hann er besti framherjinn í ensku úrvalsdeildinni í dag," sagði Argentínumaðurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×