Fótbolti

Platini fylgir ekki siðareglum FIFA - ætlar að eiga úrið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michel Platini veit hvað klukkan slær.
Michel Platini veit hvað klukkan slær. vísir/getty
Michel Platini, forseti evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, ætlar ekki að skila 3,2 milljóna króna úrinu sem hann og fleiri fengu að gjöf á meðan HM í Brasilíu stóð yfir.

Komið hefur í ljós að brasilíska knattspyrnusambandið gaf formönnum sambanda þeirra 32 þjóða sem tóku þátt á HM, öllum 28 meðlimum framkvæmdastjórnar FIFA og fimm formönnum annarra knattspyrnusambanda í Suður-Ameríku glæsileg og rándýr úr að gjöf á meðan heimsmeistarakeppnin stóð yfir.

Gregg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, hefur þurft að svara fyrir þessa gjöf undanfarna daga á Englandi og sagðist hann ekki hafa hugmynd um hvers virði úrið væri. Hann ætlaði nú að skila því í upprunalegum umbúðum þar sem hann hefur aldrei notað það.

FIFA hefur beðið alla 28 ára framkvæmdastjórn sambandsins um að skila úrunum þar sem þessa gjafir brjóta gegn siðareglum þess. Það ætlar Michel Platini aftur á móti ekki að gera.

„Ég er vel menntaður maður og skila ekki gjöfum. Ef siðanefnd FIFA var ekki ánægð með þetta hefði hún átt að segja eitthvað fyrir fjórum mánuðum þegar við vorum í Brasilíu og fengum úrin,“ segir Michel Platini.

„Nú eiga allir að skila úrunum allt í einu því það birtist grein um þetta í breskum blöðum. Mér hefur komið á óvart hvernig þetta fór allt saman og mér líka það ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×