Fótbolti

Platini: EM er barnið mitt og það er svívirðilegt að ég verð ekki með

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michel Platini, fyrrum forseti UEFA.
Michel Platini, fyrrum forseti UEFA. Vísir/Getty
Michel Platini, fyrrum forseti Knattspyrnusambands Evrópu, segir að það sé mikið óréttlæti að hann fái ekki að koma að Evrópumótinu í Frakklandi í sumar.

Platini var forseti UEFA um árabil þar til að hann var seint á síðasta ári dæmdur í sex ára bann frá knattspyrnu fyrir spillingu af siðanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Áður en málið kom upp þótti hann langlíklegastur til að verða kjörinn forseti FIFA en ekkert varð af því. Enn fremur þýðir bannið að honum verður ekki heimilt að starfa í kringum mótið á neinn hátt.

Sjá einnig: Platini harðorður: Eina markmiðið var að koma í veg fyrir að ég yrði forseti FIFA

„EM 2016 er barnið mitt en ég veit ekki hvort ég fari þangað. Það er óhugsandi að ég fái ekki að vera með frá byrjun. Þetta er svívirðilegt og gríðarlegt óréttlæti,“ sagði Platini í viðtali við BeIN Sports.

Platini og Sepp Blatter, þáverandi forseti FIFA, voru dæmdir í bann vegna greiðslu sem Platini fékk frá Blatter árið 2011. Engin gögn eða pappírar eru til sem útskýra greiðsluna.

„Mál Blatter voru skoðuð ofan í kjölinn og það má vera að hann hafi gert eitthvað sem hann átti ekki að gera, en það sama á við um mig,“ sagði Platini enn fremur.

Sjá einnig: Platini um aflandsfélagið sitt: Ég greiddi alltaf skattana mína

„En það sem hann gerði fyrir fótboltann var heilt yfir gott. Knattspyrnunni gengur vel núna og er vinsælasta íþrótt heims. Það er því fólki að þakka sem starfaði í hreyfingunni. Það ætti að þakka því fólki fyrir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×