Enski boltinn

Plataði marga með fölsuðum forsíðum um Fernando Torres

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres og Rafael Benitez.
Fernando Torres og Rafael Benitez. Vísir/Getty
Fernando Torres til Newcastle United til að spila aftur fyrir knattspyrnustjórann Rafael Benitez. Falleg frétt af mögulegum endurfundum átti sér engan stað í raunveruleikanum.

Það stukku margir á vagninn í morgun þegar þeir sáu forsíður spænsku íþróttablaðanna Sport og Deportivo þar sem slegið var upp að Fernando Torres væri á leiðinni til enska b-deildarliðsins Newcastle United.

Thomas nokkur Clements átti heiðurinn af þeim en hann hafði dunað sér við það í Photoshop að útbúa þessar fölsuðu forsíður. Hann plataði marga auðtrúa með þessu uppátæki sínu og setja forsíðurnar inn á Twitter. Mirror segir frá.

Það hjálpaði vissulega til að rómantíkin við það að sjá þá Fernando Torres og Rafael Benitez vinna saman á ný var raunsæinu yfirsterkara hjá mörgum sem fóru í framhaldinu að apa upp Twitter-færslurnar frá Thomas Clements.

Fernando Torres spilaði sín bestu ár fyrir Rafael Benitez hjá Liverpool þar sem hann varð einn besti framherji heimsins. Þeir unnu einnig saman hjá Chelsea.

Ferill Fernando Torres hefur verið á niðurleið síðan hann var seldur frá Liverpool en síðustu ár hefur hann spilað með sínu æskufélagi Atlético Madrid.

Fernando Torres hefur aðeins verið í byrjunarliði Atlético Madrid í 3 af 17 leikjum liðsins á tímabilinu og hann er með 2 mörk í 12 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×