Erlent

Pistorius í fimm ára fangelsi

Pistorius verður mögulega sleppt úr fangelsi eftir tíu mánuði.
Pistorius verður mögulega sleppt úr fangelsi eftir tíu mánuði. Vísir/AFP
Oscar Pistorius, Suður Afríski spretthlauparinn sem skaut unnustu sína Reevu Steenkamp til bana í fyrra var í morgun dæmdur í fimm ára fangelsi. Hann hafði áður verið fundinn sekur um manndráp af gáleysi.

Pistorius fékk einnig þriggja ára fangelsisdóm fyrir brot á vopnalögum en sá dómur var skilorðsbundinn.

Saksóknarar kröfðust þess að Pistorius fengi að minnsta kosti tíu ára fangelsisdóm, en verjendur töluðu fyrir því að hann fengi að sitja í stofufangelsi eða gegna samfélagsþjónustu.

Fréttaritari breska ríkisútvarpsins í Suður-Afríku segir mögulegulegt að Pistorius verði sleppt úr fangelsi eftir að hafa setið einn sjötta dómsins af sér, eða eftir tíu mánuði.

Barry og June Steenkamp, foreldrar Reevu Steenkamp, sögðust vera ánægð með dóminn og létt að málinu sé lokið. Dup De Bruyn, lögmaður Steenkamp-fjölskyldunnar segir að „réttlætinu hafi verið fullnægt“.

Áður en dómarinn Thokozile Masipa greindi frá refsingu í málinu sagði hún ákvörðunina vera hennar, þó að hún hafi notið aðstoðar í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×