Innlent

Píratar vilja segja sig úr alþjóðasamtökum

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Píratar telja að PPI skorti þau grunngildi sem Píratar á Íslandi starfa eftir.
Píratar telja að PPI skorti þau grunngildi sem Píratar á Íslandi starfa eftir. Vísir/Vilhelm
Yfirgnæfandi meirihluti Pírata eru fylgjandi úrsögn úr alþjóðasamtökum Pírata. Kosning fór fram á vef flokksins í gær þar sem félagar Pírata sem skráðir eru í kosningakerfi þeirra gátu kosið um úrsögn úr alþjóðasamtökunum Pirate Parties International. 41 greiddu atkvæði og lauk kosningunum með því að 97,5 prósent voru fylgjandi úrsögn.

„Ákvörðunin um að semja þessa ályktun var tekin einfaldlega vegna þess að PPI skortir algjörlega þau grunngildi og ferla sem Píratar á Íslandi starfa eftir. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að breyta lögum PPI og starfsemi samtakanna hefur það ekki gengið,“ segir Arnaldur Sigurðarson, en hann situr í framkvæmdaráði Pírata. Hann tekur fram að eftir fimm ára starf hefur lítið gerst hjá samtökunum og því telji Píratar á Íslandi að tími sé kominn fyrir nýtt alþjóðastarf með öflugum Pírötum í gegnum aðrar leiðir en í samstarfi við PPI.

Arnaldur Sigurðarson segir augljóst að Píratar vilji fara nýjar leiðir í alþjóðasamstarfi.
Arnaldur segir að hlutverk PPI ætti að vera að efla alþjólegt samstarf Pírata. „Hingað til hafa samtökin verið ansi slöpp við að koma slíku samstarfi af stað. Píratar í Bretlandi og Ástralíu hafa þegar sagt sig úr samtökunum og í kjölfarið skapaðist umræða hjá Pírötum á Íslandi hvort það væri þess virði að halda þessu samstafi áfram,“ segir Arnaldur.

„Nokkrir innan Pírata hafa verið virkir í samskiptum við aðra meðlimi erlendis um stöðu alþjóðasamstarfs. Markmiðið virðist vera að skapa öðruvísi vettvang sem gerir alþjóðasamstarf auðveldara og meira í takt við grunngildi Pírata sem skortir hjá PPI. Þetta er ennþá í vinnslu og erfitt að segja til um hvernig sá vettvangur kemur til með að líta út,“ segir Arnaldur.

Arnaldur telur ljóst að eftir kosningarnar í gær að Píratar hér á landi vilji fara nýjar leiðir í alþjóðasamstarfi við aðra flokka sem séu sammála þeirra grunngildum. Um 1443 meðlimir voru skráðir í flokkinn í lok mars, en að sögn Arnaldar hafa þó ekki allir meðlimir ákveðið að gerast þátttakendur í kosningakerfinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×