Innlent

Píratar vilja færri landsbyggðarþingmenn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hljóti frumvarpið brautargengi fækkar um fimm úr landsbyggðarkjördæmunum þremur. Fjöldi þingmanna verður hins vegar óbreyttur.
Hljóti frumvarpið brautargengi fækkar um fimm úr landsbyggðarkjördæmunum þremur. Fjöldi þingmanna verður hins vegar óbreyttur. vísir/Anton Brink
Sjö þingmenn Pírata hafa lagt fram lagafrumvarp um að fækka landsbyggðarþingmönnum um fimm. Markmið frumvarpsins er að jafna út misræmi í atkvæðavægi. Viktor Orri Valgarðsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Í frumvarpinu felst að þingmönnum Norðvesturkjördæmis fækkar úr átta í sex, þingmenn Norðausturkjördæmis verða átta í stað tíu og Suðurkjördæmi fær níu í stað tíu. Reykjavíkurkjördæmin tvö bæta við sig einu sæti, yrðu tólf í hvoru kjördæmi, en Kraginn fengi þrjá þingmenn til viðbótar. Yrðu þeir alls sextán.

Í tillögunni felst einnig að jöfnunarþingmönnum yrði fækkað um einn. Kjördæmin þrjú á höfuðborgarsvæðinu fengju tvo jöfnunarþingmenn hvert og Suður- og Norðausturkjördæmi fengju eitt sæti hvort. Norðvestur fengi ekki jöfnunarmann.

Norðurpíratarnir Einar Brynjólfsson og Gunnar I. Guðmundsson eru ekki meðflutningsmenn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×