Innlent

Píratar vildu gefa eftirlíkingar í Góða hirðinn

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fulltrúar Pírata mótmæltu í dag förgun húsgagna úr ráðhúsi Reykjavíkur en þau eru eft­ir­lík­ing­ar af ít­ölsk­um Cass­ina-sófum.  Píratar segja um sóun að ræða og vildu að sófanir yrðu gefnir til góðgerðarmála. 

Fréttablaðið greindi frá því í desember að Cassina hefði farið fram á við Reykjavíkurborg að eftirlíkingum af stólum og sófum eftir franska hönnuðinn Le Corbusier yrði fargað og frumhönnun keypt í staðinn, sem borgin féllst á.

Píratar tóku sér stöðu við húsgögnin í dag og segist Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi þeirra, vilja endurskoða lög um hugverka- og höfundarrétt. Hans Margrétarson Hansen var meðal þeirra sem mótmælti með því að taka sér stöðu við húsgögnin í ráðhúsinu.  

„Þetta er náttúrlega bara sóun á góðum húsgögnum. Ef við byggjum í skynsömu samfélagi þá væri niðurstaðan núna að gefa þetta í Góða hirðinn eða einhverja sambærilega stofnun. En núna er framleiðandinn með svo mikinn hroka að það má enginn sitja í húsgögnunum fyrst þau eru eins og húsgögn sem hann bjó til“.

Salvör Gissurardóttir sat einnig á eftirlíkingu af Le Corbusier sófa í mótmælaskyni.

„Þetta eru þægileg sæti og ég held að allir Íslendingar sjái að það er sóun að henda þessum stráheilu húsgögnum,“ segir hún.

Umboðsaðili Cassina segir borgina hafa brugðist hárrétt við í málinu.

„Það er verið að ljúka málinu og þá verður að ljúka því svona. Borgin tæklar þetta mál bara mjög faglega og málið leysist á á faglegan hátt, og Cassina á Ítalíu bara sáttir,“ segir Skúli Rósantsson, eigandi Casa og umboðsaðili Cassina hér á landi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×