Innlent

Píratar segja ófullnægjandi gögn á bak við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Píratar segja ekkert tillit tekið til raunverulegrar fjárþarfar stofnana í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Píratar segja ekkert tillit tekið til raunverulegrar fjárþarfar stofnana í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Vísir/Anton
Píratar segja gögn á bak við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ófullnægjandi og leiða líkur að því að fjármálaáætlunin standist hvorki lög um opinber fjármál né stjórnarskrá. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér í kvöld.

„Nú hefur fengist staðfesting á því sem Píratar óttuðust allt frá því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram; áætlun ríkisstjórnarinnar er í raun bara ágiskun, fjármunum er skipt niður á málefnasvið ráðuneyta að því er virðist handahófskennt,“ segir í tilkynningunni.

Píratar segja þessar ásakanir byggðar á nýafstöðnum fundi fulltrúa Pírata í fjárlaganefnd með formanni fjárlaganefndar og fulltrúum fjárlaganefndar. Í fréttatilkynningunni segir að á fundinum hafi ekki verið hægt að svara upplýsingabeiðni Pírata um tölur og gögn er liggja að baki fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Ástæðan er einföld: Þessi gögn eru ekki til,“ segir enn fremur í tilkynningu flokksins. 

Segja takmarkaða greiningu á útgjaldaliðum og fjárþörf liggja fyrir

Þá segja Píratar ekkert tillit tekið til raunverulegrar fjárþarfar stofnana og enn fremur að óvíst sé hvort fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar standist lög um opinber fjármál og stjórnarskrá.

„Takmörkuð greining á einstaka útgjaldaliðum eða fjárþörf einstakra stofnana eða verkefna liggur fyrir. Það má því leggja þessi vinnubrögð að jöfnu við að fjármálaráðuneytið hafi dregið skiptingu fjármuna í fjármálaáætlun upp úr hatti. Ekkert tillit hefur verið tekið til raunverulegrar fjárþarfar stofnana við þessa ágiskun, ófullnægjandi gögn liggja fyrir um kostnað einstakra verkefna sem fjármálaáætlun setur á herðar einstakra stofnana og er þeim því haldið í óvissu um hvort fjármunir fáist í þau verkefni sem þeim hefur verið falið.

Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir faglegri úttekt sem undirstöðu fjármálaáætlunar á meðan stjórnarskráin felur löggjafanum fjárveitingarvaldið. Fjármálaáætlun skilur Alþingi eftir í fullkominni óvissu um hvernig framkvæmdarvaldið hyggst ráðstafa fjármunum almennings. Því má leiða líkur að því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar standist hvorki lög um opinber fjármál né stjórnarskrá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×