Innlent

Píratar gefast upp á Pírataspjallinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir þingmaður endurnefnir hópinn Þjóðarsálina og segir þá sem stofnuðu flokkinn flesta farna af vettvangnum.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður endurnefnir hópinn Þjóðarsálina og segir þá sem stofnuðu flokkinn flesta farna af vettvangnum. Vísir/Stefán
„Þjóðarsálin: Pólitískt spjallsvæði áður þekkt sem Pírataspjallið. Viðhorf Pírata eru ekki endilega endurspegluð hér og engin stefnumótun á sér stað á þessum vettvangi.“

Svo hljóða skilaboð á nýrri opnumynd Facebook-hópsins Pírataspjallið sem Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, setti inn fyrr í kvöld eftir að Vísir birti frétt um kýting, persónuárásir og almenna úlfúð inni á Pírataspjallinu.

Smári McCarthy Pírati hafði þá birt færslu á Pírataspjallinu þar sem hann sagði skynsemi drukkna í fávitaskap í umræðum á hópnum, sem telur nú nærri fimm og hálfa þúsund manns, og að margir stofnendur og upprunalegir meðlimir Pírata væru hættir að nenna að taka þátt í umræðunum.

Í ummælum við frétt Vísis skrifar Birgitta að spjallhópurinn hafi verið endurnefndur um stund vegna þess að þeir aðilar sem láti hópinn um þessar mundir loga í illdeilum eigi ekkert skylt við Píratahreyfinguna. Þau sem hafi tekið þátt í að stofna flokkinn séu að mestu horfin af þessum vettvangi.

Á opnumyndinni er þess getið að þeir sem vilja kynna sér stefnu Pírata eða ganga í flokkinn geta heimsótt vefinn piratar.is eða opinberu Facebook-síðuna piratar.island.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×