Skoðun

Píratar fá fólkið heim

Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar
Nyrstu Norðurlöndin standa öll frammi fyrir sama vandamálinu: Unga fólkið flytur í burtu og kemur oft ekki aftur heim. Þetta mynstur er samfélögunum dýrkeypt og þetta gerði sérstaklega vart við sig hér á Íslandi eftir hrun, eins og við vitum.

Ísland er að mörgu leyti ósjarmerandi samfélag miðað við hina lýðræðislegu Skandinavíu; hér ríkir spilling og gölluð stjórnmálamenning. Hér er dýrt að lifa, færri atvinnumöguleikar og þröngsýni algeng. Eftir að hafa komið sér vel fyrir í stærra samfélagi þar sem kerfin virka betur er fátt sem togar þig heim. Vonin um breytingar á ylhýra Íslandi of lítil. Ég var búin að búa í útlöndum í sjö ár.

En svo komu Píratar.

Píratar eru upplýsingaþyrstir og alþjóðlega sinnaðir. Þeir vilja fyrst og fremst vinna gegn spillingu og byggja upp lýðræðislega stjórnmálamenningu réttlætis og jafnræðis. Þeir fagna framtíðinni og þora að dreyma stórt. Þeir vilja nýta tækifærin sem bjóðast með nýrri tækni og þróun fremur en að ströggla við að halda í fortíðina.

Við erum fjölmörg í flokknum sem höfum flutt aftur heim til Íslands út af Pírötum. Píratar blása okkur von í brjóst um nýja og betri tíma.

Snýst um vilja til breytinga

Píratar vilja stuðla að þekkingarsamfélagi og uppbyggingu nýrra greina sem henta ungu, vel menntuðu fólki. Nýsköpun og samstarf þvert á geira eru lykilatriði í færslunni frá samfélagi sem byggir á náttúruauðlindum og til þess sem byggir á þekkingu. Samfélögin hér í Norðrinu eru sprottin af nýtingu náttúruauðlinda en það þýðir ekki að það þurfi endilega að vera framtíðin. Unga fólkið menntar sig sem aldrei fyrr og því vantar störf fyrir vel menntað fólk. Með menntun sinni hefur unga fólkið þegar kosið aðra atvinnustefnu en flestir stjórnmálaflokkar á Íslandi bjóða upp á. Það er ekki nóg að byggja eina nýja áburðarverksmiðju til að mæta þessari þörf, það þarf að hugsa stærra, þróa nýtt og bregðast við breyttum tímum.

Þessar kosningar snúast ekki um að velja á milli hægri- eða vinstristefnu heldur val um afturhald eða vilja til breytinga. Leyfum okkur að dreyma um lýðræðislegt, nútímalegt samfélag. Og látum drauminn rætast í þessum kosningum.








Skoðun

Sjá meira


×