Innlent

Píratar bæta þriðjungi við fylgi sitt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. vísir/daníel
Helsta breytingin á fylgi flokka milli mánaða er að Píratar bæta þriðjungi við fylgi sitt, eða tæplega fjórum prósentustigum, en rúmlega 15% þeirra sem tóku afstöðu segjast myndu kjósa Pírata færu kosningar til Alþingis fram í dag. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Að sama skapi minnkar fylgi Framsóknar um tæp tvö prósentustig og fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar um sitt hvort prósentustigið. Fylgi annarra flokka breytist lítið eða á bilinu 0,1-0,5 prósentustig. Liðlega 26% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, um 17% Samfylkinguna og rúmlega 13% Bjarta framtíð.

Um 11% myndu kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, sama hlutfall Framsóknarflokkinn og 6% aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.

Tæplega 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og rúmlega 12% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað milli mánaða, en rúmlega 37% þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana. 

Spurt var: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa? En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?  Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna? Styður þú ríkisstjórnina? 

Niðurstöður eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 29. janúar til 25. febrúar 2015. Heildarúrtaksstærð var 5.488 og þátttökuhlutfall var 58,5%.

mynd/gallup



Fleiri fréttir

Sjá meira


×