Enski boltinn

Phil Neville: Flamini eins og rúðuþurrka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathieu Flamini og Adam Lallana í leiknum.
Mathieu Flamini og Adam Lallana í leiknum. Vísir/Getty
Phil Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og Everton, leikgreindi viðureign Liverpool og Arsenal fyrir BBC en liðin gerðu 2-2 jafntefli í æsispennandi leik á Anfield í gær.

Neville er á því að Liverpool hafi átt miðjuna í leiknum og að Liverpool-liðið hefði átt að vera búið að klára leikinn í fyrri hálfleiknum alveg eins og það gerði einu ári fyrr.

Phil Neville segir að Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, eigi mikið hrós skilið fyrir það hvernig hann setti upp þennan leik en hann nýtti sér það vel að Arsenal spilar bara með einn afturliggjandi miðjumann.

Liverpool sett Mathieu Flamini í vandræði að mati Phil Neville með því að setja Adam Lallana og Philippe Coutinho sitt hvorum megin við hann og í framhaldinu vissi Flamini ekki hvorn hann ætti að dekka.

„Ég spilaði oft sem afturliggjandi miðjumaður og hef oft lent í þeirri stöðu sem Flamini var í fyrri hálfleiknum og þetta er vanþakklátt starf. Ég skildi því vel af hverju hann var orðinn svona pirraður," skrifaði Phil Neville í leikgreiningu sinni á BBC.

„Þetta var vonlaust fyrir Flamini og ég myndi líkja þessu við það að vera rúðuþurrka. Þú horfir til vinstri, þú horfir til hægri og reynir að komast þangað sem Liverpool-liðið fer með boltann sem er yfirleitt öfugt við þá leið sem þú ert á," skrifaði Neville.

Það er hægt að sjá alla leikgreiningu Phil Neville með því að smella hér en fyrir ofan eru einnig svipmyndir frá þessum viðburðaríka leik.


Tengdar fréttir

Brendan Rodgers: Liverpool getur náð einu af fjórum efstu sætunum

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur enn fulla trú á því að liðið geti tryggt sér Meistaradeildarsæti á þessu tímabili þrátt fyrir mikla erfiðleika á fyrri hluta tímabilsins. Liverpool náði 2-2 jafntefli á móti Arsenal í gær eftir að hafa jafnað metin í uppbótartíma.

Skrtel: Hef beðið lengi eftir markinu

Martin Skrtel, varnarmaður Liverpool, segir að hann og félagar hans hafi verið óheppnir að ná ekki stigunum þrem gegn Arsenal í hörkuleik í enska boltanum í dag. Lokatölur 2-2.

Frammistaðan betri en í fyrra

Rodgers var himinlifandi eftir jafnteflið gegn Arsenal og segir að sitt lið hafi spilað betur í ár heldur en í fyrra þegar liðið skellti Arsenal 5-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×