Sport

Phelps var lyfjaprófaður þrettán sinnum fyrir ÓL í Ríó

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Phelps svarar þingnefndinni í Washington í gær.
Phelps svarar þingnefndinni í Washington í gær. vísir/getty
Sigursælasti íþróttamaður í sögu Ólympíuleikanna, Michael Phelps, fékk svo sannarlega enga sérmeðferð fyrir Ólympíuleikana síðasta sumar.

Phelps greindi frá því fyrir framan þingnefnd í Washington í gær að hann hefði verið lyfjaprófaður alls þrettán sínnum í aðdraganda leikanna.

Flestir aðrir íþróttamenn hafa ekki sömu sögu að segja og margir hverjir fóru ekki í eitt lyfjapróf allt árið fyrir leikana.

Samkvæmt úttekt Independent Observer þá sluppu 1.913 íþróttamenn í greinum, sem eru skilgreindar sem greinar þar sem líklegt er að íþróttamenn svindli, við lyfjapróf árið 2016. Sund, frjálsar og lyftingar eru á meðal þeirra greina sem eru skilgreindar sem greinar þar sem meiri líkur eru á svindlurum.

Alls tóku 11.470 íþróttamenn þátt á leikunum í Ríó og 4.125 þeirra fóru ekki í neitt lyfjapróf fyrir leikana.

Þessi meðferð sem Phelps fékk er því ansi sérstök. Hann vann alls til 28 verðlauna á Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×