Sport

Phelps kvaddi með myndatöku af sér með öll Ólympíuverðlaunin sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Phelps.
Michael Phelps. Vísir/Getty
Það er ekki létt verk að halda á öllum Ólympíuverðlaunum hans Michael Phelps í einu og það fékk kappinn að kynnast sjálfur í myndatöku á vegum Sports Illustrated.

Michael Phelps tilkynnti það í forsíðuviðtali við Sports Illustrated að hann væri hættur en sögulegum sundferli hans lauk þar með á Ólympíuleikunum í Ríó.

Michael Phelps vann sex verðlaun þar af fimm gull (og eitt silfur) á Ólympíuleikunum í Ríó og bætti þar með enn frekar við metið sitt.

Phelps endar ferilinn með 28 verðlaun á Ólympíuleikunum sem er met alveg eins og að hann á metið yfir flest gullverðlaun (23), flest gull í einstaklingsgreinum (13) og flest verðlaun í einstaklingsgreinum (16). Næst á eftir honum á listann yfir flest heildarverðlaun er sovéska fimleikakonan Larisa Latynina sem vann samtals átján verðlaun og níu gull.

Þetta er reyndar í annað skiptið sem Michael Phelps tilkynnir að hann sé hættur. Hann hætti einnig eftir Ólympíuleikana í London en ákvað að snúa aftur fyrir leikana í Ríó. Með því sá hann nánast til þess að enginn mun komast nálægt því að bæta metin hans í næstu framtíð.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af honum frá umræddri myndatöku Sports Illustrated þar sem Michael Phelps mætti með öll verðlaun sín frá Ólympíuleikunum í Aþenu 2004, Ólympíuleikunum í Peking 2008, Ólympíuleikunum í London 2012 og Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Það er hægt að lesa kveðjuviðtal Michael Phelps hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×