Erlent

Perúski herinn bjargaði 39 manns úr höndum uppreisnarhóps

Atli Ísleifsson skrifar
Fjórar herþyrlur voru notaðar til að flytja gíslana á brott.
Fjórar herþyrlur voru notaðar til að flytja gíslana á brott. Vísir/AFP
Perúski herinn hefur bjargað 39 manns frá búgarði þar sem liðsmenn uppreisnarhópsins Ljómandi vegur (Sendero Luminoso) hefur haldið þeim í þrældómi.

Í frétt BBC kemur fram að sumir gíslanna segja að þeim hafi verið rænt fyrir um þrjátíu árum síðan. Talsmaður perúska varnarmálaráðuneytisins segir að 26 hinna 39 séu börn og hafi mörg þeirra fæðst á búgarðinum.

Um 120 perúskir hermenn tóku þátt í aðgerðinni, en fyrrum liðsmenn uppreisnarhópsins komu hermönnum á snoðir um búgarðinn.

Fjórar herþyrlur

Fjórar herþyrlur voru notaðar til að flytja gíslana á brott. „Við höfum verið hér, svona, í þrjátíu ár,“ sagði einn gíslanna í samtali við dagblaðið La Republica.

Sum börnin sem haldið var föngnum voru að sögn hrædd við hermennina eftir að uppreisnarmennirnir höfðu sagt hermennina ætla að drepa þau.

Konum gert að fjölga sér

Aðstoðarvarnarmálaráðherrann Ivan Vega Loncharich segir að búgarðurinn hafi verið þannig starfræktur að börnunum var gert að vinna í landbúnaði og konum gert að fjölga sér til að fjölda þannig í hópi uppreisnarhópsins.

Ljómandi vegur er uppreisnarhópur sem leitar innblásturs til maóista og lognaðist að mestu út af á tíunda áratugnum eftir að hafa staðið fyrir skæruhernaði um árabil.

Um 70 þúsund manns létust eða hurfu eftir rúmlega áratugalangar deilur hópsins og perúskra yfirvalda. Yfirvöld hafa sakað liðsmenn hópsins um framleiðslu og ólöglega sölu á kókaíní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×