Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: Gleymdi dómarinn að Skúli Jón var á gulu spjaldi?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rauða spjaldið sem Skúli Jón Friðgeirsson, varnarmaður KR, fékk í leiknum gegn Val í gær er eitt það umdeildasta sem leikmaður hefur fengið í Pepsi-deildinni í sumar.

Skúli Jón fékk síðari áminningu sína um miðjan síðari hálfleik fyrir kjaftbrúk frá Guðmundi Ársæli Guðmundssyni, dómara leiksins.

„Kristinn Freyr og Gunni (Gunnar Þór) eru að berjast um boltann og ég hleyp til Guðmundar Ársæls af því að mér finnst hann vera að halda honum. Ég sagði orðrétt við hann „hann má ekki halda honum þó hann sé í sókn“. Ekkert annað, ekkert blótsyrði eða neitt,“ sagði Skúli Jón við Vísi um atvikið í gær.

Sjálfur fullyrti Skúli Jón að Guðmundur Ársæll hafi gleymt því að hann væri á gulu spjaldi en byrjaður að labba í burtu áður en hann snýr sér svo við og gefur honum síðari áminninguna.

„Mér finnst þetta hæpið. Þú þarft að vera með slæmt skammtímaminni ef þú manst ekki hverjum þú hefur gefið gult spjald,“ sagði Logi Ólafsson en málið var tekið fyrir í Pepsi-mörkunum í gær.

„Ég held að hann [Guðmundur Ársæll] sé að láta hann [Skúla Jón] fá annað gult spjald því hann telur að hann hafi sagt eitthvað sem er óviðurkvæmilegt,“ sagði Logi enn fremur.

Uppákomuna og umræðuna í Pepsi-mörkunum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×