Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: Ábyrgð þeirra er mikil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Athygli vakti að hvorki Damir Muminovic né Gísli Eyjólfsson voru í byrjunarliði Breiðabliks gegn ÍBV í 20. umferð Pepsi-deildar karla.

Ekki var um meiðsli né leikbönn að ræða heldur voru leikmennirnir í agabanni. Gísli spilaði þó seinni hálfleikinn en Damir kom ekkert við sögu. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli sem þýddi að FH varð Íslandsmeistari.

Agabann Damirs og Gísla var til umræðu í Pepsi-mörkunum í gærkvöldi.

„Það liggur fyrir að þeir brutu einhverjar agareglur. Ég ætla ekki að taka þessa menn af lífi, menn gera mistök og allt það, en það eru rosalega þungar byrðar á þeirra herðum ef þessi tvö stig, sem liðið hefði getað náð í með þeirra hjálp, munu skilja að,“ sagði Hjörtur Hjartarson og vísaði til baráttunnar um Evrópusæti sem er mjög hörð.

„Þetta er mjög alvarlegt mál og erfitt fyrir Arnar að vera í þessari stöðu. Liðið spilaði frábærlega á móti Val, vann 3-0, en svo þarf hann að gera tvær breytingar út af einhverju svona kjaftæði,“ bætti Hjörtur við. Logi Ólafsson tók undir með honum.

„Ef það verður niðurstaðan, að liðið nær ekki í Evrópukeppni, þá finnst manni þessir menn bera ansi mikla ábyrgð á því,“ sagði Logi og hélt áfram.

„Burtséð frá liðinu sjálfu, ef maður lítur á persónulegan metnað þessara manna sem stefna, eftir því sem maður heyrir, eitthvað annað en að vera hér. Ef þeir ætla að auglýsa sig með þessum hætti geta þeir gleymt slíku.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×